Taigo eykur enn frekar á mikið úrval nettra jepplinga sem eru hvað vinsælastir á bílamarkaðnum í dag. Bíllinn líkist mjög T-Cross en er með meira flæðandi þaklínu að aftan sem gefur honum „coupe“ útlit. Flott LED ljósalína nær yfir alla framhliðina að Volkswagen-merkinu og tengist IQ.LIGHT-LED matrix aðalljósunum með tilkomumiklum ljósastöfum. Þokuljósin eru innbyggð í stuðarann. Hið sportlega yfirbragð heldur áfram í slútandi afturhliðinni með nútímalegum afturljósum og er undirstrikað með mjórri LED-ljósasamstæðu með ljósalínu sem nær frá þakbrún til aftursvuntunnar. Taigo er eilítið lægri en T-Cross. Hann er 4.266 mm að lengd en þaklína bílsins situr um 10 mm lægra.

Klassískt yfirbragð í innanrýminu

Innanrýmið er laglegt, raunar ekta Volkswagen. Klassískt yfirbragð yfir öllu og ekkert verið að flækja hlutina. Stafræna stjórnborðið er með 8 tommu (20,32 cm) litaskjá sem staðalbúnað og birtir hann mikilvægar upplýsingar á borð við ökuhraða og ekna vegalengd. Digital Cockpit Pro gerir ökumanni kleift að stilla 10,25-tommu (26,04 cm) skjáinn eftir þörfum. Til dæmis er hægt að velja um að birta akstursaðstoðarkerfið myndrænt eða sambland af leiðsögukorti og skjábirtingum. Það er auðveldlega hægt að hlaða öll tækin jafnvel úr aftursætinu með USB-innstungu í miðjuarmhvílunni í framsætunum. Leðurklætt fjölnotastýri er staðalbúnaður í Line-búnaðarlínunni.

110 hestafla bensínvél

Bíllinn er sjálfskiptur og framhjóladrifinn með 1,0 lítra TSi bensínvél sem skilar 110 hestöflum. Bíllinn er 10,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraði er 191 km/klst. Bíllinn er fínn í akstri, léttur og lipur. Stýringin er frekar létt en bíllinn höndlar sig nokkuð vel almennt í akstrinum. Smávegis vegljóð heyrist og aðeins í bensínvélinni en annars hann ágætlega þéttur í akstri.

Bíllinn er með fjórar akstursstillingar sem ökumaður getur valið úr eftir því hvernig hann vill keyra. Rafræni mismunalásinn XDS aðstoðar við að koma í veg fyrir rás, sem bætir upp fyrir undirstýringu í hröðum beygjum, eins og er algengt í bílum með framdrif. Eyðslan er uppgefin frá 5,9 lítrum í sjálfskiptum Taigo með þessari bensínvél og CO2 losun er uppgefin 111 g/km.

Nánar er fjallað um Volkswagen Taigo og upplifun blaðamanns af bílnum í Bílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins.