Krákur eru nýjasta lausnin í að þrífa upp rusl af götum. Sænska sprotafyrirtækið Corvid Cleaning hefur búið til vél sem verðlaunar krákum sem skila inn sígarettustubbum með mat.

„Þetta eru villtir fuglar sem taka þátt af frjálsum vilja,“ hefur The Guardian eftir Christian Günther-Hanssen, stofnanda Corvid Cleaning sem er staðsett í borginni Södertälje, skammt frá Stokkhólmi.

Samtökin The Keep Sweden Tidy Foundation áætlar að meira en einn milljarður sígarettustubba eru skildir eftir á götum Svíþjóðar á hverju ári og að það samsvari um 62% af öllu rusli á götunum. Södertälje eyðir um 20 milljónum sænskra króna eða um 275 milljónum íslenskra króna í götuþrif.

Günther-Hanssen telur að með því að nýta krákurnar sé hægt að spara í það minnsta 75% af kostnaðinum við að fjarlægja sígarettustubba í borginni.

Borgaryfirvöld í Södertälje eru með aðferðina til prófunar þessa dagana en helstu áhyggjuefni snúa að velferð fuglanna.

Rannsóknir á Nýju-Kaledóníukrákum gefa til kynna að þær séu með röksemdargáfur á við sjö ára krakka. Günther-Hanssen segir að fyrir vikið séu þær bestu fuglarnir fyrir þetta verkefni. Auðvelt sé að kenna þeim en þær eru einnig líklegar að kenna hvor öðrum á kerfið. Jafnframt eru minni líkur á að þær borði óvart ruslið sem þær tína upp.

„Matið á kostnaðinum við að tína upp sígarettustubba í dag er um 80 aurar [11 íslenskar krónur] eða meira á hvern stubb, sumir segja tvær sænskar krónur [28 íslenskar krónur]. Ef krákan tínir upp sígarettustubba, þá er það kannski um 20 aurar [2,8 íslenskar krónur] á hvern stubb. Sparnaðurinn fyrir borgarstjórnina veltur á því hversu marga stubba krákurnar tína upp,“ er haft eftir Günther-Hanssen.