Fjórða kynslóð Nissan jepplingsins, X-Trail, verður kynntur til leiks í desember. Hinn nýi Nissan X-Trail, sem er ekki plug-in og því ekki stungið í hleðslu, er stærri en áður og kemur nú í fyrsta sinn með e-Power tækni Nissan sem á að veita ökumanni og farþegum sambærilega upplifun og einkennir hljóðlátan og snarpan akstur hreinna rafbíla.

Nissan þróaði nýjustu útgáfu sína á e-Power tækninni sérstaklega með sparneytni jepplinga í huga. Það sem aðgreinir e-Power frá annarri tvinntækni er að rafmótorinn er eini aflgjafinn út til hjóla sem gerir viðbragð bílsins sambærilegt og á rafbíl. Tæknin gæti því hentað fyrir þá sem eru annað hvort ekki í aðstöðu til að hlaða bílinn heima eða vilja vera lausir við að koma við á hleðslustöðvum á lengri ferðalögum um landið.

Nýr Nissan X-Trail e-Power verður í bæði 5 og 7 sæta útgáfu og er X-Trail eini 7 sæta rafknúni jepplingurinn í sínum stærðarflokki á markaðnum. Bíllinn er 7 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst enda er togsvörunin margföld samanborið við sambærilegan bíl með hefðbundið mekanískt fjórhjóladrif.

Þá er bíllinn byggður á nýjum CMF-C undirvagni með uppfærðri Macpherson fjöðrun og yfirbyggingin að mestu leyti smíðuð úr áli til að draga úr þyngd og auka sparneytni, svo nokkuð sé nefnt.