Firmað ritar er nýtt hlaðvarp sem hóf göngu sína í ársbyrjun. Í hverjum þætti taka stjórnendurnir Kjartan Örn Sigurðsson og Kolbeinn Marteinsson eina bók til umfjöllunar sem á einhvern hátt tengist viðskiptum.

Í þáttunum ræða þeir til skiptis bækur sem hafa gagnast þeim undanfarin 20 ár, í viðskiptum, rekstri, einkalífi eða einfaldlega veitt þeim innblástur og gleði. Þættirnir er hugsaðir fyrir árangursdrifið fólk sem hefur áhuga á að bæta sig eða einfaldlega auka við þekkingu sína.

Kjartan Örn, sem er forstjóri SRX heildsölu, og Kolbeinn, fyrirtækjaráðgjafi hjá Athygli, hafa báðir yfir 20 ára reynslu af íslensku atvinnulífi og hafa komið að stofnun og rekstri fjölda fyrirtækja hér á landi sem og erlendis.

„Nýr þáttur kemur í loftið á gjalddaga staðgreiðslu launa 15. hvers mánaðar og við mánaðarlok þegar laun eru greidd,“ segir í lýsingu hlaðvarpsins sem er að finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Fyrsti þátturinn fjallaði um bókina Raving Fans sem er skrifuð af þeim Ken Blanchard og Sheldon Bowles.