Barist verður um Ofurskálina í Glendale í Arizona á sunnudagskvöld. Fram til þess að hefur djúpsteikt loðna ekki verið á borðum þegar Íslendingar safnast saman og fylgjast með þessum mikla sjónvarpsviðburði. En það gæti breyst innan tíðar.

Í ár munu Ernirnir frá Philadelphia og Höfðingjarnir frá Kansas City etja kappi um skálina eftirsóttu. Hér er ekki eingöngu um úrslitaleik í ruðningi eins og hann er leikinn vestanhafs heldur má líta á þetta sem einhverskonar menningarviðburð þar sem mörgu af því besta úr bandarískri dægur- og matarmenningu er blandað saman við íþróttir.

NFL-deildin nýtur mikilla vinsælda á Íslandi og eru vikulegar útsendingar frá deildarkeppninni. Þegar leikið er um ofurskálina nær áhuginn langt út fyrir raðir unnenda bandarísks fótbolta. Er Ísland engin undantekning í þeim efnum. Á þessum tíma árs eru flestir tilbúnir að nota hvert tækifæri til þess að lyfta sér upp og Ofurskálin er gott tilefni til þess.

Þannig er ljóst að fjöldi Íslendinga mun safnast saman næsta sunnudagskvöld til þess að fylgjast með leiknum sem og að lyfta glasi og borða marga af ástsælustu réttum bandarískrar matarmenningar. Meðal þeirra eru kjúklingavængir með heitri sósu, pitsur, kafbátar, lárperumauk, maísflögur og fleira í þeim dúr.

Kjúklingavængir hafsins

Þrátt fyrir að úrslitaleikurinn í NFL sé ávallt leikinn á þorranum þegar loðnuvertíð kemst í hámæli hafa Íslendingar ekki séð ástæðu til þess að rugla þessum ólíku reitum saman. Þannig mun það vera fátítt að vinahópar safnist saman með þorrabakka og vaki fram á morgun þegar leikið er um Ofurskálina. Og óheyrt er að Íslendingar tengi saman veisluhöld vegna úrslitaleiks NFL við hrognafyllingu loðnu í febrúarmánuði.

En sumir sjá tækifæri í flestum hlutum. Þórður Gunnarsson, hagfræðingur og áhugamaður um uppsjávarveiðar og bandarískan fótbolta, telur að Íslendingar ættu að taka upp siði annarra þjóða og borða loðnu enda sé um herramannsmat að ræða. „Loðnan er frábært hráefni hvort sem um fiskinn eða hrognin er að ræða. Loðna til manneldis er árstíðarbundin vara – það er að segja ef það á að borða hana ferska – og sökum mikilvægi hennar fyrir þjóðarbúið færi vel á því Íslendingar tileinkuðu sér að borða hana í febrúar þegar hún veiðist í 100 þúsunda tonna tali.“

Þórður bendir á að loðnan geti átt vel heima með hefðbundnum kræsingum sem hafðar eru á borðum þegar horft er á Ofurskálina: „Í raun og veru er loðnan kjúklingavængur hafsins, ef svo má að orði komast. Rétt eins og ansjósan er beikon hafsins. Djúpsteikt loðna er fullkomin staðkvæmdarvara kjúklingavængja.“

Þórður lætur verkin tala í þessum efnum. Hann hefur unnið að því að undanförnu að loðnan rati í eldhús veitingahúsa höfuðborgarinnar. Hefur honum orðið ágengt en í febrúar mun veitingastaðurinn Brút bjóða gestum sínum upp á loðnu á matseðli. Brút sem er við Pósthússtræti í Reykjavík hefur á stuttum starfstíma sínum verið í fararbroddi að kynna Íslendingum fyrir fisktegundum sem að jafnaði hafa ekki verið á borðum hér á landi. Þannig má nefna að fersk skata hefur notið vinsælda á staðnum en skatan hefur lengi þótt herramannsmatur víða um heim og fáum öðrum en Íslendingum dottið í hug að væri einungis æt rotin.

Nánar er fjallað um steikta loðnu og Ofurskálina í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.