Listaverk Ólafs Elíassonar, Solar Iris of Mouton , prýðir flöskumiða 2019 árgangs rauðvínsins Chateau Mouton Rothschild. Þetta kemur fram á heimasíðu vínframleiðandans .

Vínið kemur frá samnefndri vínekru í Bordeaux og hefur löngum verið talið eitt besta rauðvín sem völ er á. Á heimasíðu víngerðarinnar, þar sem greint er frá samstarfinu, segir að listaverk Ólafs sé óður til samspils sólarinnar og vínsins.

Efri hluti miðans vísar til dagsljósins sem sólin veitir og neðri hlutinn til „miðnæturblárrar næturinnar“. Hægt er að fræðast meira um hugsunina á bakvið listaverk flöskumiðans í myndbandi hér að neðan.

Hefð víngerðarinnar um að láta listaverk prýða flöskumiða Chateau Mouton Rothschild, nær aftur til ársins 1945 og hefur allar götur síðan verið eitt helsta einkenni þessa gæðavíns. Frá þeim tíma hafa verk listagoðsagna á borð við Miró, Chagall, Braque, Picasso, Tépis, Dali og Balthus, svo fáeinir séu nefndir, myndskreytt flöskumiða þessara eðalvína.

Chateau Mouton Rothschild er eitt af fimm vínum, sem eiga rætur sínar að rekja til Bordeaux, sem skipa efsta flokk vína sem þaðan koma; Premier Grand Cru Classé.

Ef marka má upplýsingar úr leitarvél Google, nemur meðalverð hverrar flösku 2019 árgangsins af Chateau Mouton Rothschild um 612 dölum, eða sem nemur um tæplega 80 þúsund íslenskum krónum.