Styrktarsjóður William Paley heitins, stofnanda fjölmiðlafyrirtækisins CBS, hefur byrjað að selja frá sér ýmis meistaraverk sem lánuð hafa verið til Nýlistasafns New York í fjölda ára. Sjóðurinn seldi málverk eftir Pablo Picasso á 37,1 milljónir dala, eða 5,4 milljarða króna, á uppboði hjá Sotheby‘s í gær. WSJ greinir frá.

Málverkið „Gítar á borði“ eftir Picasso er frá árinu 1919. Það var meðal 24 listaverka sem Sotheby‘s lánaði Nýlistasafni New York eftir að Paley féll frá árið 1990. Paley var 45 ára þegar hann keypti málverkið árið 1946.

Fyrir útboðið var spáð því að söluverðið yrði um 20 milljónir dala eða nærri helmingi lægra. Samkeppni á milli tveggja bjóðenda ýttu verðinu upp.

Styrktarsjóðurinn segist hafa ákveðið listaverkin sín í von um að safna ríflega 70 milljónum dala eða um 10 milljörðum króna fyrir góð málefni. Sjóðurinn hyggst meðal annars fjármagna stafrænt átak Nýlistasafnsins.

Salan í gær kom eftir að slegið var sölumet yfir stakt listaverkasafn þegar verk í eigu Paul Allen heitins, meðstofnanda Microsoft, voru seld á 1,5 milljarða dala í síðustu viku. Þar voru auk þess slegin met yfir hæsta verð á uppboði á málverkum eftir listamenn á borð við Vincent van Gogh og Paul Cézanne.