Nýr rafknúinn EQE lúxusbíll frá Mercedes EQ var frumsýndur hér á landi fyrir skömmu. Við fengum að prófa ofurútfærsluna Mercedes AMG EQE 43 og að aka þessum ofurbíl er stórskemmtileg upplifun.

EQE svarar til E bílsins og er minni bróðir EQS, sem er í S línunni. Það verður að segjast að EQE samsvarar sér betur en EQS. Bogadregið formið og coupe formuð þaklínan flæðir mjúklega frá framendanum að afturendanum. Maður hefur á tilfinningunni að bíllinn sé mun minni en E. Svo er ekki. EQE er eilítið stærri en munurinn er sá að maður situr neðar sem gerir bílinn sportlegri fyrir vikið. 476 hestöfl og togið er 858 Nm.

Mercedes AMG EQE 43 er með sérstakri AMG vatnskassahlíf og AMG vindskeiði sem er það helsta sem aðgreinir AMG frá hefðbundnum EQE. Aflrásin með tveimur rafmótorum skilar bílnum alls 476 hestöflum. Togið er 858 Nm. Það er geggjaður kraftur í þessum bíl og hann þýtur úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4,2 sekúndum.

Drægnin er allt að 535 km á rafmagninu sem telst gott. Bíllinn er búinn 4MATIC fjórhjóladrifinu sem er nauðsynlegt við íslenskar aðstæður. Á það reyndi þó ekki mikið þar sem götur voru auðar.

Bíllinn er mjög vel búinn og kemur aðeins í Power útfærslunni – sem er með öllum þeim búnaði sem máli skiptir. Mercedes AMG EQE 43 kostar 18,2 milljónir króna og ég læt það vera fyrir þennan aflmikla og stórskemmtilega lúxusbíl. Reyndar er 53 einnig í boði fyrir tvær milljónir í viðbót. Sá er 677 hestöfl og 3,3 sekúndur í hundraðið.

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta nálgast fleiri myndir og umfjöllunina í heild hér.