Mistur eftir Ragnar Jónasson er komin í fyrsta sæti metsölulista Der Spiegel yfir mest seldu kiljur í Þýskalandi, en þetta er í fyrsta sinn sem bók eftir íslenskan höfund nær toppsætin. Bókin hóf göngu sína á listanum í fjórða sæti fyrir viku síðan, en bók ragnars Dimma, upphafsbók þríleiksins náði öðru sæti listans í sumar.

Mistur, sem er lokabókin í þríleik Ragnars um lögreglukonuna Huldu, kom út í Þýskalandi fyrr í mánuðinum, en útgefandi hennar þar fór þá óhefðbundnu leið að gefa út allar bækur þríleiksins með skömmu millibili. Hinar bækurnar í bókaröðinni, Dimma og Drungi, komu út í maí og júlí. Á þýsku nefnast bækurnar Dunkel, Insel og Nebel.

Allar hafa bækurnar þrjár notið mikilla vinsælda í Þýskalandi, sem endurspeglast í að allar þrjár áttu sæti meðal tíu mest seldu kilja landsins í síðustu viku, eins og Viðskiptablaðið sagði frá . Fáheyrt er að höfundar eigi svo marga titla í senn í efstu sætum sölulista. Dimma situr nú í fjórða sæti listans og Drungi í því ellefta.

Árangurinn endurspeglar að Ragnar er um þessar mundir meðal vinsælustu höfunda Evrópu. Þær vinsældir hafa líka skilað sér í ákvörðun bandaríska sjónvarpsrisans CBS um gerð átta þátta sjónvarpsáttraðar upp úr Dimmu, en greint var frá þeirri ákvörðun 17. september síðastliðinn.

Bækur Ragnars hafa selst í um einni og hálfri milljón eintaka á heimsvísu, en þær eru gefnar út í um það bil 40 löndum á 27 tungumálum.