Steingrímur Sigurgeirsson hefur skrifað greinar um vín í þrjá áratugi, fyrst í Morgunblaðið en síðan á vefsíðunni Vínótek, sem margir þekkja. Steingrímur velur að þessu sinni þrjú vín, sem hann segir að hafi heillað hann hvað mest í smökkunum þetta árið. Ertu þetta allt rauðvín frá gamlaheiminum, nánar tiltekið frá Portúgal, Spáni og Ítalíu. Hann segir að vínin eigi það öll sameiginlegt að gefa neytandanum einstaklega mikið fyrir peninginn. Öll hafi þau gott af umhellingu og þoli þau geymslu í allnokkur ár.

Chryseia P+S Douro 2018

Byrjum á Chryseia, sem er toppvínið í samvinnuverkefninu P+S sem stendur fyrir samstarf vínfjölskyldnanna Prats og Symington. Bruno Prats var löngum eigandi Chateau Cos d’Estournel í Bordeaux og Symington-fjölskyldan hefur verið einu sú áhrifamesta í Douro í Portúgal um langt skeið og á m.a. portvínshúsin Graham’s og Dow’s. Symingtonarnir höfðu um langt skeið átt hlut í einu besta portvínshúsi Douro-dalsins, Quinta de Roriz og eignuðust það alveg ásamt Prats árið 2009. Fjölskyldurnar þekktust vel í gegnum samstarf á vettvangi Primi Famileum Vini, sem eru samstarfsvettvangur nokkurra af þekktustu vínfjölskyldum heimsins. Sú vinátta varð til þess að Prats og Symington ákváðu 1999 að taka höndum saman um framleiðslu á víni þar sem aðferðum Bordeaux væri beitt á þrúgur portvínshéraðsins Douro.

Fyrsta Chryseia-vínið var gert árið 2000 og það skipaði sér strax í hóp bestu rauðvína Portgúal. Chryseia 2011 varð þannig fyrsta vínið frá Portúgal – sem ekki er portvín – sem komst inn á árlegan lista Wine Spectator yfir bestu vín heims og þá í þriðja sæti.

Chryseia 2018 er fáanlegt í vínbúðunum og er það gert úr þrúgunum Touriga Franca og Touriga Nacional og 2018 voru hlutföllin 55/45. Dökkt, massívt ogþéttriðið með kröftugum en fínlegum tannínum, ferskt og míneralískt. Einstaklega tignarlegt vín.

Kr. 7.499

Finca Martelo Reserva 2015

Næst yfir landamærin til Spánar. Finca Martelo er eitt hinum stórkostlegu vínum La Rioja Alta, víni sem ætlað er að vera samtímaútgáfa af rauðu Rioja-víni stillt upp samhliða hinum sígildu vínum hússins er halda í hefðina. 2015 er þriðji árangurinn sem hefur verið framleiddur af Martelo. Uppistaðan í blöndunni er auðvitað Tempranillo en það er smá hlutfall af Mazuelo, Garnacha og hinni hvítu Viura allt af gömlum vínvið í Rioja Alavesa. Vínið liggur lengi á tunnum og það er greinilegt í nefinu að það er fyrst og fremst notuð amerísk eik (80%). Liturinn er djúpur, dökkur, eikin framarlega í nefi, tannín fínleg, kraftmikið, sýra sem tryggir langan ferskleika, ávöxturinn þykkur, pipraður. Einstaklega fágað og stórkostlega útfært vín.

Kr. 4.999

Tua Rita Rosso dei Notri 2019

Og svo verður auðvitað að vera Ítali, nóg til af frábærum slíkum í vínbúðunum og ánægjulegt að sjá nú í fyrsta skipti vín frá Tua Rita í búðunum en þau hafa verið í miklu dálæti um nokkurt skeið.

Hjónin Rita Tua og Virgilio Bisti festu 1984 kaup á vínbúgarði í þorpinu Sovereto suður af Bolgheri í Toskana. Upphaflega voru hektararnir tveir á lítilli ekru sem heitir Notri en hafa nú vaxið í þrjátíu og er öll vínrækt þeirra lífræn. Tua Rita-vínin urðu fljótt algjör „költ“-vín ekki síst Merlot-vínið Redigaffi sem varð líka fyrsta ítalska vínið til að fá fullt hús stiga eða 100 punkta skor hjá Robert Parker.

Rosso dei Notri er „standard“-vínið frá Tua Rita, blanda úr Cabernet Sauvignon, Merlot, Syrah og Sangiovese. Þrúgurnar koma af sömu ekrum og stóru vínin. Þrúgurnar í þetta vín eru teknar í hús fyrr á meðan bestu klasarnir eru skildir eftir í rúma viku til að þroskast áfram í stóru vínin Redigaffi og Per Sempre. En þetta vín er svo sannarlega ekkert slor, dimmrautt og kröftugt, frábærlega balanserað og glæsilegt vín.

Kr. 3.891

Fjallað er um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímaritinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .