Roman Abramovich, eigandi knattspyrnufélagsins Chelsea FC, hefur sett félagið til sölu. Þetta kemur fram í grein hjá Matt Law , blaðamanni Telegraph Sport, en hann hefur reynst ansi sannspár um málefni félagsins í gegnum tíðina.

Meðal mögulegra kaupenda Chelsea er 86 ára gamli svissneski milljarðamæringurinn Hansjörg Wyss. Hann staðfesti í samtali við svissneska fjölmiðilinn Blick að hann hefði áhuga á því að kaupa félagið. Samkvæmt Blick er Wyss í samstarfi við þrjá bandaríska viðskiptajöfra um kaup á félaginu.

„Mér, auk þriggja annarra, hefur verið boðið að kaupa Chelsea frá Abramovich," sagði Wyss í samtali við Blick. „Eins og aðrir olígarkar, þá er hann [Roman] hræddur við mögulegar viðskiptaþvinganir á hendur sér. Hann er að reyna að selja eignir sínar á Englandi og vill selja Chelsea sem fyrst.“ Wyss segist enn fremur ekki ætla að kaupa Chelsea einn síns liðs. Hann ætli að safna liði sex til sjö fjárfesta.

Samkvæmt Daily Mail hefur Roman ráðið bandaríska viðskiptabankann Raine Group til að stýra söluferlinu og hefur bankinn nú þegar haft samband við mögulega kaupendur félagsins, þar á meðal Wyss.

Jim Radcliffe, ríkasti maður Bretlands og landeigandi á Norðausturlandi, er einnig orðaður við kaup á félaginu. Hann var áður orðaður við kaup á ráðandi hlut í Chelsea árið 2018, en hann á nú þegar ráðandi hlut í franska knattspyrnuliðinu Nice og í svissneska knattspyrnuliðinu Lausanne. Radcliffe er auk þess ársmiðahafi hjá Chelsea á Stamford Bridge.

Sjá einnig: Roman tekur þátt í friðarviðræðum

Í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hafa háværar raddir innan Bretlands skorað á Boris Johnson og ríkisstjórn hans að beita hörðum viðskiptaþvingunum á hendur Abramovich og frysta eignir hans í Bretlandi.

Síðastliðinn laugardag steig hann til hliðar sem stjórnandi Chelsea og færði stjórn félagsins í hendur stjórnar góðgerðarsamtaka Chelsea. Hann tók einnig þátt í friðarviðræðum á milli Rússlands og Úkraínu fyrr í vikunni, en það virðist þó ekki hafa skilað miklum árangri.

Vill fá um 700 milljarða króna fyrir félagið

Chelsea hefur ekki formlega svarað staðhæfingum Wyss né þeim sögusögnum að félagið sé til sölu. Áhugasömum kaupendum hefur verið tjáð að Roman vilji fá 4 milljarða punda fyrir félagið, jafnvirði um 685 milljörðum króna. Heimildir Telegraph herma að Roman þurfi að láta sér nægja upphæð nær tveimur milljörðum punda, en Chelsea skuldar honum 1,5 milljarða punda.

Chris Bryant, þingmaður breska Verkamannaflokksins heldur því jafnframt fram að Abramovich hafi nú þegar tekið stór skref í áttina að því að selja fasteignir sínar í Bretlandi. Bryant kallar eftir því að ríkisstjórnin hafi hraðari hendur í beitingu viðskiptaþvingana á hendur rússneskra olígarka sem hafa viðskiptatengsl við Vladimír Pútín, að því er kemur fram í grein hjá The Guardian.

Sigursælasta félag Englands

Frá því að Roman tók við eignarhaldi Chelsea árið 2003 hefur félagið unnið tvo Meistaradeildartitla, fimm Englandsmeistaratitla, tvo Evrópudeildartitla, einn Heimsmeistaratitil, fimm FA bikara, þrjá deildarbikara og einn Ofurbikar Evrópu. Félagið hefur því unnið 19 stóra titla frá því að hann tók við félaginu og er sigursælasta lið Englands á tímabilinu.

Hann hefur því reynst góður eigandi fyrir Chelsea, en til samanburðar hafði félagið einungis unnið 9 stóra titla á 100 árum fyrir yfirtökuna.