Þjóðarsjóður Sádi-Arabíu, PIF, reyndi að kaupa Formula One Group, sem heldur á viðskiptaréttindum Formúlu 1 kappaksturskeppninnar, á fyrri hluta síðasta árs. Þrátt fyrir að PIF hafi metið heildarvirði Formúlu 1 á vel yfir 20 milljarða dala, eða yfir 2.850 milljarða króna, hafði eigandinn Liberty Media Group ekki áhuga á að selja.

Þó viðræðurnar hafi siglt í strand hefur þjóðarsjóðurinn enn áhuga á að eignast Formúlu 1 ef eigandinn, Liberty Media, skiptir um skoðun, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.

Liberty Media keypti Formula One Group árið 2017 af CVC Capital á 4,4 milljarða dala. Heildarvirði F1 félagsins, með skuldum meðtöldum, var um 8 milljarðar dala í viðskiptunum.

Frá því að Liberty Media tók við rekstrinum hafa vinsældir Formúlunnar aukist gríðarlega, m.a. vegna aukinnar áherslu á samfélagsmiðla og með hinum vinsælu Netflix þáttum Drive to Survive. Þá hefur tekist vel að auka áhorf í Asíu og Bandaríkjunum.

Liberty Media er með sér hlutabréfaflokk utan um F1 eignarhald sitt skráðan á markað. Markaðsvirði bréfanna hefur meira en tvöfaldast á undanförnum fjórum árum og nemur nú rúmum 16 milljörðum dala. Gengi bréfanna hækkaði um 5% í fyrstu viðskiptum í dag.

Sádi-Arabía hefur á undanförnum árum fjárfest gríðarlegum fjárhæðum í íþróttaheiminum. PIF keypti 80% hlut í enska knattspyrnufélaginu Newcastle United árið 2021. Þjóðarsjóðurinn fjármagnar einnig LIV Golf mótaröðina í golfi, sem hóf göngu sína í fyrra og hefur þegar sótt til sín marga af þekktustu golfurum heims.