Ragnar Freyr Ingvarsson lærði meira en bara lækningar úti í Svíþjóð en síðan hann og fjölskylda hans sneru aftur heim hafa þau lagt upp úr því að hafa jólin afslappaðri sem og lengja aðdragandann og gera meira úr honum.

„Við höfum verið svínahamborgarfjölskylda alveg frá því að ég var lítill, erum ein af þeim, en síðan giftist ég inn í rjúpufjölskyldu svo í mínu fjölskyldulífi í dag reynum við að finna jafnvægið á milli þessara tveggja sterku hefða. Svo ætli ég verði ekki með nokkrar rjúpur á jólaborðinu í ár og svo lítinn svínahamborgarhrygg til að sætta þessar stríðandi fylkingar,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, en hann heldur úti vinsælu matarbloggsíðunni Læknirinn í eldhúsinu.

„Yfirleitt er ég með foreldra mína og bróður í mat, fyrir utan fjölskylduna mína, á aðfangadag, en oftast koma líka mágkona mín og fjölskylda hennar og tengdaforeldrar líka. Þá þarf sérstaklega að huga að þörfum þess hluta fjölskyldunnar, enda vill maður gleðja sem flesta á jólunum. Síðustu ár hef ég notað sous-vide aðferðina þegar ég elda hamborgarhrygginn, og svo grillað hann að lokum. Þannig lokar maður vökvann inni, enda býr aðferðin til alveg lokað umhverfi, og þá verður hann algerlega safaríkur fyrir allan peninginn. Ég ætla svo að elda rjúpnabringurnar með svipuðu sniði, eftir að að hafa súsvídað þær mun ég svo snöggsteykja þær en gera sósu úr beinunum.“

Íslenska leiðin líklega ein sú versta

Ragnar Freyr hefur sterkar skoðanir á því hvernig eigi að elda góðan mat sem vanda þurfi sérstaklega í kringum hátíðarnar. „Íslenska aðferðin við að elda rjúpu, það er að sjóða hana í potti þangað til hún dettur í sundur, er líklega ein versta leiðin til þess að fara með annað eins góðgæti og rjúpuna,“ segir Ragnar Freyr sem segir að þó hætt sé við því að rjúpur geti orðið þurrar sé alveg hægt að gera þær mjúkar og safaríkar.

„Það þarf að elda bringuna eins varlega og hægt er því þetta er mjög magurt kjöt, enda eiginlega engin fita á rjúpunni. Síðan má auðvitað taka beinagrindina og halda þá í íslensku hefðina og búa til alveg dúndur góða rjúpnasósu með því að sjóða hana alveg í kæfu.“ Spurður hvort fólk sé almennt að vakna upp til vitundar um mikilvægi þess að gera gott soð vísar hann í fyrstu matreiðslubók Auguste Escoffier, föður franska eldhúsins.

„Hann sagði alla góða eldamennsku hefjast í soðinu, það skipti engu máli hvað verið sé að elda, það byrji með góðu soði. Ég held að allir sem hafi áhuga á matseld fari á endanum að gera sín eigin soð eða spá í hvar þeir fái góð soð keypt, en skiljanlega eru þeir sem eru bara að elda af og til ekkert að pæla í þessu,“ segir Ragnar Freyr sem rekur matargerðaráhugann til foreldra sinna.

„Þau höfðu alla tíð mikinn áhuga á matargerð og lyftu sér upp og lýstu upp hversdaginn með góðri matseld. Síðan elduðum við alltaf til skiptis á heimilinu, ég og bróðir, minn einu sinni í viku alveg frá unglingsaldri, þannig að þetta festist og lifað með manni. Ég hef haldið í þetta sama með mín börn að þau læri að velja hvað er í matinn, elda góðan mat, sem og ganga svo frá eftir sig. Ég finn vel hve þægilegt það er að eiga aðgengilegt áhugamál samhliða annasömu starfi þar sem alltaf er brjálað að gera, enda nauðsynlegt að geta skipt alveg um gír og gert eitthvað annað þegar heim er komið. Þetta er líka áhugamál sem gefur alltaf af sér, enda þurfa allir að borða og skemmtilegt að geta gefið fjölskyldunni með sér.“

Jólin hófust alltaf með látum

Ragnar Freyr starfar sem gigtarlæknir á Klíníkinni í Ármúla en hann er jafnframt lyflæknir á Landspítalanum. Konan hans heitir Snædís Eva Sigurðardóttir og eiga þau saman þrjú börn, Valdísi Eik 18 ára, Vilhjálm Bjarka 14 ára og Ragnhildi Láru 7 ára, en sonurinn var einmitt viðstaddur spjallið við blaðamann og tók virkan þátt. Spurður út í jólahefðirnar að öðru leyti segir Ragnar að eftir margra ára sérnám í Svíþjóð hafi þau fjölskyldan lært nauðsyn þess að vera afslappaðri í kringum jólahátíðina.

„Þegar ég var að alast upp hófust jólin alltaf með látum á Þorláks-messu, með smá aðventuhátíð, kökubakstri og svona eins og gengur og gerist. Foreldrar mínir sem voru kennarar voru alltaf mjög upptekin í aðdraganda jólanna svo loksins á Þorláksmessu byrjuðu jólin með því að skreyta tréð og raða gjöfunum undir það,“ segir Ragnar. Hann segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun þeirra hjóna eftir að snúið var heim til Íslands fyrir nokkrum árum að lengja aðdragandann og gera hann skemmtilegri fyrir bæði sjálfan sig og börnin í stað þess að halda fast í þessa hefð að heiman.

„Núna erum við farin að tylla upp jólatrénu mun fyrr en áður, þannig að það stendur í nokkurn tíma og síðan laumum við skrauti hér og skrauti þar, og svo er pökkunum laumað undir tréð eftir því sem þeir verða tilbúnir svona til þess að byggja upp spennu og tilhlökkun. Svíarnir gera þetta mjög vel, eru með margar skemmtilegar hefðir á aðventunni, smákökubakstur og fjölskyldur hittast í skólanum og víðar.“ Þá skýtur Vilhjálmur inn í og minnir á Lúsíuhátíðina sem honum þótti falleg byrjun á jólahátíðinni, en hún er haldin 13. desember ár hvert þar sem börn klæðast hvítu, bera kertaljós á höfði og syngja jólasöngva og tekur Ragnar Freyr undir með syni sínum.

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Uppskriftir Ragnars Freyr Ingvarssonar Jólagjafahandbók 2019
Uppskriftir Ragnars Freyr Ingvarssonar Jólagjafahandbók 2019
© Aðsend mynd (AÐSEND)