Bardagi Tyson Fury og Dillian Whyte um heimsmeistaratitilinn í þungavigt í hnefaleikum verður haldinn á Wembley leikvanginum í Lundúnum 23. apríl nk. Mikil spenna er í loftinu og seldust 85 þúsund miðar upp á aðeins þremur klukkutímum. Ákveðið hefur verið að selja 9 þúsund miða til viðbótar og því munu um 94 þúsund áhorfendur troðfylla Wembley til að verða vitni að þessari sögulegu viðureign.

Tyson Fury hefur gefið það út að bardaginn gegn Whyte verði hans síðasti á glæstum hnefaleikaferli. Fury á titil að verja, en hann er ríkjandi WBC heimsmeistari eftir þrjá magnaða bardaga við Deontay Wilder og hefur sett sér það markmið að hætta ósigraður.

Fury hefur unnið 31 bardaga á ferlinum, þar af 22 með rothöggi, og aðeins tapað einum. Næstur í áskorendaröðinni er Dillian Whyte sem hefur unnið 28 bardaga og þar af 19 með rothöggi og tapað aðeins tveimur. Hann vann nýlega öruggan sigur á Alexander Povetkin í fjögurra lotu bardaga og hefur augastað á stærsta titlinum í hnefaleikaheiminum.

Sænski þungavigtarkappinn Otto Wallin átti að mæta Whyte 30. október síðastliðinn, en fresta varð bardaganum vegna axlarmeiðsla Whyte. „Auðvitað voru það vonbrigði að Whyte skyldi hætta við, því sigurvegarinn úr okkar bardaga hefði á endanum fengið að mæta Fury. En það er ekkert sem ég get gert í þessu. Ég held áfram, sigra mína bardaga og fæ annað tækifæri von bráðar.“

„Ég held að Fury sigri. Hann er of góður boxari fyrir Whyte. Hann er klárari en Whyte og bæði betri að verja sig og að sækja. Möguleiki Whyte liggur í því að minnka hringinn, ýta Fury út í horn og vinna þaðan. Fury er hins vegar mjög góður í að forða sér og ég held að hann muni eiga svör við öllum tilraunum Whyte,“ segir Otto Wallin.

Bardaginn verður sýndur á Viaplay.