Íslenska ríkið, í gegnum ríkisfyrirtækið Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), hefur einkaleyfi á smásölu áfengis hér á landi. Ísland er eitt af fáum löndum í Evrópu sem er með slíkt fyrirkomulag en í flestum öðrum löndum er smásala áfengis í höndum einkaaðila sem keppa á samkeppnismarkaði. Um langa hríð hefur umræða átt sér stað í íslensku samfélaginu um ágæti þessa fyrirkomulags.

Umræðan hefur að undanförnu verið hvað háværust í kringum vefverslanir sem selja áfengi. Um árabil hafa Íslendingar haft möguleika á að panta áfengi í gegnum erlendar vefverslanir sem svo er sent heim að dyrum. Aftur á móti hefur verið deilt um hvort innlendum vefverslunum sé raunverulega óheimilt að selja áfengi í smásölu beint til neytenda, vegna einkaleyfis ÁTVR. ÁTVR telur svo vera. Þeir sem barist hafa fyrir því að innlendir aðilar fái að selja áfengi í smásölu í gegnum vefinn hafa aftur á móti bent á að umfang einkaleyfis ÁTVR beri að túlka þröngt í lagalegum skilningi vegna ákvæða stjórnarskrár um atvinnufrelsi og jafnræðisreglu.

Sumir hafa klórað sér í kollinum yfir því að erlendir áfengissalar hafi heimild til að selja áfengi beint til íslenskra neytenda en innlendir áfengissalar ekki. Nokkrir þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins eru þar á meðal. Þeir hafa í nokkur skipti lagt fram frumvarp á Alþingi sem myndi heimila vefverslun með áfengi hér á landi og jafna þar með stöðu innlendra og erlendra áfengissala. Hingað til hefur frumvarpið þó ekki hlotið náð fyrir meirihluta þingsins og á meðan ríkir áfram ákveðið óvissuástand.

Nokkrir innlendir verslunarmenn hafa þó ekki dáið ráðalausir og opnað vefverslanir þar sem áfengi er selt í smásölu þrátt fyrir fyrrgreinda óvissu. Flestir hafa þeir brugðið á það ráð að opna vefverslun í gegnum félög sem skráð eru á erlendri grundu, en vörulagerinn er svo staðsettur hér á landi. Á undanförnum mánuðum hefur þeim sem hafa farið þessa leið farið fjölgandi. Erfitt er að komast að nákvæmum fjölda þessara verslana en Viðskiptablaðið tók saman sex vefverslanir sem selja fjölbreytt úrval af áfengi beint til íslenskra neytenda.

Santewines

Segja má að Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, hafi farið fyrir baráttunni um afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis, eða að lögmæti netverslunar verði að minnsta kosti undirstrikað með lagasetningu. Arnar hefur um árabil rekið heildverslunina Sante og í maí í fyrra opnaði hann frönsku vefverslunina Santewines SAS. Í vefverslun Santewines má meðal annars finna léttvín, bjór og sterkt áfengi en mesta úrvalið er af rauðvíni. Þar eru rauðvín frá Búrgúndí héraði í Frakklandi í aðalhlutverki en Arnar er mikill aðdáandi vína sem þaðan koma.

Í samtali við Viðskiptablaðið í sumar sagði Arnar áfengisverið ÁTVR vera 15 til 20% of hátt, þrátt fyrir mikla skattlagningu áfengis á Íslandi. Tók hann sem dæmi vinsælar bjórtegundir sem seldar eru bæði hjá Sante og ÁTVR. Þannig hafi 33cl flaska af belgíska bjórnum Stella Artois verið seld á 389 krónur hjá ÁTVR en 308 krónur hjá Sante, sem geri 26% verðmismun. Ítalski bjórinn Peroni sé auk þess 22% ódýrari hjá Sante. Að lokum nefndi hann 25% verðmismun á Brut Nature kampavíni, sem verðlagt væri á 5.600 krónur hjá Sante en á tæpar sjö þúsund krónur hjá ÁTVR. „Þess má geta að vörunúmerunum fjölgar nánast í hverjum mánuði. Þannig munum við bæta við fleiri bjórtegundum og verður þá verðmismunurinn jafnvel enn meiri,“ sagði Arnar.

Nýja Vínbúðin

Í júlí í fyrra opnaði Sverrir Einar Eiríksson bresku vefverslunina Nýju Vínbúðina sem þjónar íslenskum markaði. Ýmsar áfengistegundir eru til sölu í vefversluninni og vörunúmerin rúmlega þúsund talsins. Í tilkynningu þar sem greint var frá opnun verslunarinnar sagði Sverrir að allar vörur Nýju Vínbúðarinnar yrðu að jafnaði 10 til 30% ódýrari en í verslunum ÁTVR. Hann benti á að Íslendingar hefðu búið við ríkiseinokun í verslun með áfengi en þrátt fyrir það átt kost á að versla við erlendar vefverslanir um langa hríð. Opnun Nýju Vínbúðarinnar myndi ýta undir heilbrigða samkeppni og styðja viðbættan hag neytenda á öllum sviðum.

Bjórland

Þórgnýr Thoroddsen stofnaði Bjórland og hóf að selja íslenskan handverksbjór í gegnum samnefnda vefverslun sumarið 2020. Á síðunni er hægt að kaupa íslenskan handverksbjór sem og bjór frá erlendum handverksbrugghúsum. Þá geta bjórunnendur skráð sig í áskrift á bjór, en þrjár áskriftarleiðir eru í boði sem kosta frá 5 þúsund krónum og upp í 15 þúsund krónur á mánuði. Vefverslunarrekstur Bjórlands fer fram í gegnum íslenskt félag. Í samtali við Viðskiptablaðið snemma árs 2021 sagði Þórgnýr að félagið seldi bjór í heimsendingum á þeirri forsendu að það eigi sömu reglur að gilda um vefverslanir á Íslandi og á Evrópusvæðinu. „Við höfum alveg verið látin vera í friði með þetta, enda held ég að markmiðið sé að breyta fyrirkomulagi vefverslunar með áfengi á Íslandi þannig að hún sé eins og í Evrópusambandinu, frekar en að níðast á henni hér á landi sérstaklega,“ sagði hann meðal annars.

Þórgnýr Thoroddsen stofnaði Bjórland í byrjun ársins 2020 ásamt Helga Þóri Sveinssyni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Heimkaup

Vefverslunin Heimkaup, sem selur matvörur, snyrtivörur, raftæki og ýmislegt fleira, bætti áfengi við vöruúrval sitt síðasta sumar. Danska fyrirtækið Heimkaup ApS er söluaðili áfengisins en Heimkaup dreifir vörunni. Þegar tilkynnt var um þetta sagði Pálmi Jónsson, forstjóri Heimkaupa, að það væri ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum upp á þessa eðlilegu og sjálfsögðu þjónustu fram á kvöld á virkum dögum og báða helgardagana að auki. „Það er löngu tímabært að bjóða upp á úrval af bjór og léttum vínum í vefverslun okkar,“ sagði hann meðal annars.

Pálmi Jónsson stýrir Heimkaup. Síðasta sumar hóf vefverslunin að selja áfengi beint til neytenda í gegnum danskt félag.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.