Bandaríska skyndibitakeðjan Chipotle Mexican Grill, sem eins og nafnið gefur til kynna leggur áherslu á mexíkóska matargerð, mun á morgun gefa út sérstakan leik innan tölvuleiksins vinsæla, Roblox. Í leiknum gefst spilurum kostur á að spreyta sig í að vefja svokallaðar Burrito vefjur. Leikurinn kemur út í tilefni af alþjóðlega Burrito deginum sem haldinn er hátíðlegur 7. apríl ár hvert. Market Watch greinir frá.

Í leiknum geta Roblox spilarar unnið sér inn „Burrito dali“ sem hægt verður að nota á veitingastöðum Chipotle. Í tilkynningu á samfélagsmiðlum segir skyndibitakeðjan að leikurinn sé byggður á ummælum aðdáenda skyndbitakeðjunnar á samfélagsmiðlum, sem hafa líkt því að vefja Burrito á réttan máta við það að spila flókinn tölvuleiki.

Er þetta í annað sinn sem Chipotle gefur út leik inni í Roblox, en í október á síðasta ári gaf skyndibitakeðjan út leikinn „Chipotle Burrito Maze“. Söguheimur nýja leiksins byggist á 10. áratug síðustu aldar er Chipotle burrito-in var fyrst kynnt til leiks.

Tvö önnur stór fyrirtæki í matvælaiðnaðinum vestanhafs, Wendy's og Coca-Cola, hafa nýlega gefið út leiki í Roblox tölvuleiknum.