Sveitasetrið Villa Vedri í Sant‘Agata di Villanova í Piacenza héraðinu á Ítalíu er til sölu. Ítalska tónskáldið Giuseppe Verdi byggði húsið árið 1848.

Verdi var meðal áhrifamestu tónskálda Ítalíu á 19. öld, en tónverk Verdi voru einkum óperur. Þekktustu verk Verdi eru meðal annars La Traviata, Aida, Otello og Falstaff. Foreldrar hans bjuggu fyrst um sinn í húsinu á árunum 1948-1951. Þá flutti Verdi í húsið með þáverandi eiginkonu sinni Giuseppina Strepponi og bjó þar til æviloka.

Húsið er nú í eigu fjögurra systkina, afkomenda Maria Filomena Verdi yngri frænku Giuseppe Verdi, en Maria var alin upp af honum og eiginkonu hans Strepponi.

Verdi fjölskyldan hefur staðið í deilum sín á milli síðastliðin tuttugu ár um sveitasetrið. Ekkert systkinanna hafði efni á því að kaupa húsið af hinum. Því ákváðu þau að selja eignina, sem inniheldur tónverk, bækur, málverk, rúm og aðrar eigur tónskáldsins. Í grein Guardian segir að húsið verði líklega selt á uppboði, en ítalska ríkið er með forkaupsrétt á húsinu.

Frá árinu 2010 hefur húsið að hluta til verið notað sem safn, þar sem gestir geta skoðað herbergi hússins. Í einu herbergjanna er rúm og önnur húsgögn sem voru í hótelherberginu í Mílanó, þar sem Verdi lifði sinn síðasta dag.

Angiolo Carrara Verdi hefur haft umsjón með húsinu á þessum tíma, það er frá árinu 2010. Hann segir að tónskáldið hefði viljað að húsið væri notað eins og heimili, ekki eins og safn. Hann segist vonast eftir því að framtíðarkaupandi hússins ætli sér að búa í húsinu.