Um helgina munu Philadelphia Eagles og Kansas City Chiefs mætast í Super Bowl og berjast um Vince Lombardi bikarinn fræga. Samtök veðmálafyrirtækja áætla að bandarískir fjárhættuspilarar muni veðja um 16 milljörðum dala, eða 2.270 milljörðum króna, á leikinn sem yrði nýtt met.

Raungerist sú áætlun yrði um að ræða tvöföldun á milli ára en Bandaríkjamenn lögðu veðmál að fjárhæð 7,6 milljarða dala á úrslitaleik NFL-deildarinnar á milli Los Angeles Rams og Cincinnati Bengals Eagles í fyrra.

Samtökin, American Gaming Association, áætla að yfir 50 milljónir Bandaríkjamanna muni veðja á leikinn. Leikurinn, sem er yfirleitt efst á lista yfir áhorfstölur bandarískra sjónvarpsviðburða á ári hverju, ætti því að skila ágætis tekjum fyrir veðmálafyrirtæki á borð við FanDuel og DraftKings, að því er segir í frétt Financial Times.

Um er að ræða 57. skiptið sem Super Bowl fer fram. Úrslitaleikurinn verður haldinn í Arizona í ár og fer fram í fyrsta sinn í ríki þar sem veðmál á íþróttaviðburðum eru lögleg. „Þetta verður í fyrsta sinn sem þú munt sjá fólk í stúkunni draga fram símann og leggja inn veðmál,“ hefur FT eftir Matt Kalish, meðstofnanda DraftKings.