Nú þegar skammdegið hellist yfir og hin heilaga hátíð jólanna nálgast nýta margar fjölskyldur tækifærið til að auka samverustundir sínar og er þá kjörið að skemmta sér saman yfir góðum spilum. Hér á eftir kemur listi yfir bæði ný spil, þar með talið spil ársins í Þýskalandi hvaðan vinsælustu spil síðustu ára hafa verið að koma, sem og eldri og klassískari spil.

Just One

Just One
Just One
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Spil ársins í ár í Þýskalandi er samstarfspartýleikur þar sem leikendur reyna að uppgötva sem flest leyniorð og fá stig fyrir þannig að þeir séu sem næst 13 stigum, með því að gefa hverjum öðrum vísbendingar. Þannig reynir einn leikandi að giska á orðið í hvert sinn meðan hinir skrifa niður vísbendingar en hver þeirra þarf að vera einstök svo sá sem giski fái að sjá hana.

 • Fjöldi: 3-7 leikendur
 • Spilunartími: 20 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

Azul

Azul
Azul
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Mynstursspil sem byggir á því að safna stigum með því að ná að safna og raða mislitum töflum eftir kúnstarinnar reglum, en fyrirmyndin er dregin af mósaíkskreytingum í suðrænum höllum. Þá keppast leikendur um að ná þeim töflum sem henta fyrir þeirra skreytingu en einnig er hægt að skemma fyrir öðrum leikendum með því að taka þær sem ljóst er að þeir þurfa. Hentar vel fyrir þá sem finnst gaman að sökkva sér í að setja upp mynstur en eru samt fullir af keppnisskapi.

 • Fjöldi: 2-4 leikendur
 • Spilunartími: 30-45 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

Slide Quest

Slide Quest
Slide Quest
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Samvinnuspil fyrir alla fjölskylduna, ekki ólíkt gömlu veltipétrunum þar sem kúlu var rennt í völundarhúsi. Í Slide Quest hjálpast hins vegar allir leikendurnir við að koma riddaranum í mark með því að ýta niður handföngum á hverri hlið kassans sem halla borðinu svo hann renni eftir brautinni fram hjá gildrunum á leiðinni. Allir eru að spila á sama tíma í fullri virkni allan tímann svo það hentar vel að spila með ungum börnum. Fjölmörg mismunandi borð eru í hverjum kassa með hækkandi erfiðleikastigi og aukaverkefnum fyrir riddarann.

 • Fjöldi: 1-4 leikendur
 • Spilunartími: 15-45 mínútur
 • Aldur: 6 ára og uppúr

Tsurro

Tsurro
Tsurro
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Einfalt og fallegt spil með klassísku asísku þema þar sem markmiðið er að ýta öðrum leikendum út af borðinu með því að leggja mismunandi brautir á borðið á sama tíma og reynt er að halda sér innan þess sem lengst sjálfur. Hver leikandi fær spjöld með línum sem leikendur ferðast eftir, svo hvernig þær eru lagðar niður stjórnar því hvar næsti leikmaður við spjaldið sem lagt er niður endar uppi. Fljótlegt spil sem byggir á bæði heppni og útsjónarsemi.

 • Fjöldi: 2-8 leikendur
 • Spilunartími: 15 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

Century: Spice Road

Century: Spice Road
Century: Spice Road
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fyrsta spilið í Century spilaflokknum, en hin tvö eru Eastern Wonders og A New World, en hægt er að spila hvert fyrir sig, blanda öllum þremur eða velja einungs tvö þeirra saman eftir hentugleika. Þemað vísar í verslun með krydd þar sem leikendur safna stigum með því að byggja upp verslunarleiðir, kaupa og selja eða rækta krydd sem eru mismunandi mikils virði, en þannig fást stigaspjöld sem aftur gefa meira krydd. Þó spilunin sé nokkuð flóknari en í einföldustu spilunum er leikurinn hraður og lærist fljótt.

 • Fjöldi: 2-5 leikendur
 • Spilunartími: 30-45 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

L.L.A.M.A.

L.L.A.M.A.
L.L.A.M.A.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fljótlegt og einfalt spjaldaspil sem tilnefnt var sem spil ársins í Þýskalandi í ár. Markmiðið er að losna sem hraðast við spilin 6 sem leikendur fá á hendi í byrjun, með því að leggja jafnhátt eða sífellt hærri spil, upp að lamadýrinu sjálfu og þá byrjar hringurinn aftur. Þegar einn klárar fá aðrir leikendur mínusstig fyrir þau spil sem enn eru á hendi, þangað til einhver hefur fengið 40 mínusstig.

 • Fjöldi: 2-6 leikendur
 • Spilunartími: 20 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

Outfoxed

Outfoxed
Outfoxed
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Létt og skemmtilegt samstarfspil þar sem spilarar eru hópur kjúklinga sem eru að reyna að finna út hvaða refur stal eplakökunni hennar fröken Plumperts. Snýst spilið um leit að vísbendingum og upplýsa um nýja mögulega sakborninga, en smátt og smátt er hægt að þrengja hringinn um hver þjófurinn er en hafa þarf hraðar hendur áður en þjófótti refurinn sleppur. Hentar vel ungum börnum sem læra fljótt að átta sig á hvort mögulegir sakborningar hafi eitthvað sameiginlegt með því sem vitað er um hinn seka eða ekki.

 • Fjöldi: 2-4 leikendur
 • Spilunartími: 15 mínútur
 • Aldur: 5 ára og uppúr

Klassík: Monopoly

Monopoly
Monopoly
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Síðan spilið var fyrst sett á markað árið 1935 hafa komið fjöldamargar útgáfur af því en í grunninn keppa leikendur alltaf um að eignast bestu lóðirnar og byggja þær upp til að geta rukkað aðra um sem hæsta leigu. Eru rætur spilsins rakin til spils sem gefið var út 1904 til að kenna hve slæmur kapítalisminn sé, og mæla fyrir um mikla landskatta. Þó víða sé hefð fyrir ýmis konar húsreglum er besta og hraðasta spilunin falin í því að fylgja upprunalegum reglum um uppboð eigna sem ekki eru keypt af leikandanum sem lendir á þeim.

 • Fjöldi: 2-8 leikendur
 • Spilunartími: 60 til 180 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

Klassík: Ticket to Ride

Ticket to Ride
Ticket to Ride
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Leikendur byggja upp lestarteina milli borga og bæja í keppni við aðra um leiðir og stig. Því lengri leiðir því fleiri stig en leikendur fá einnig sérstök verkefni um að tengja ákveðnar leiðir sem gefa aukastig ef uppfyllt. Gerðar hafa verið fjölmargar útgáfur sem taka fyrir ýmis lönd og landsvæði, sem bæta við flækjustigum, en upphaflega kortið er fyrir Bandaríkin. Jafnvel eru til einfaldar barnaútgáfur.

 • Fjöldi: 2-5 leikendur
 • Spilunartími: 30 til 60 mínútur
 • Aldur: 8 ára og uppúr

Klassík: Settlers of Catan

Settlers of Catan
Settlers of Catan
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Leikendur í Landnemunum á Catan velja sér tvær staðsetningar sem hver veitir aðgang að þremur af fimm mismunandi auðlindum, sem nýtast til uppbyggingar fleiri bæja og borga. Spilið kallar á mikil samskipti milli leikenda og viðskipti því oft hefur annar spilari aðgang að auðlindum sem þig vantar og öfugt. Fjölmargar viðbætur hafa svo komið ofan á grunnspilið.

 • Fjöldi: 2-4 leikendur, en með viðbót 6
 • Spilunartími: 1,5 til 3 tímar, fer eftir fjölda leikenda
 • Aldur: 10 ára og upp úr

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbók in ni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .