Spænska fótboltafélagið FC Barcelona hefur gert samning við Spotify um að merki streymisveitunnar verði á treyjum og æfingafatnaði félagsins. Jafnframt mun Spotify fá rétt yfir nafninu á hinum sögufræga leikvangi Camp Nou eða Nývangi, en leikvangurinn mun nú bera nafnið Spotify Camp Nou, samkvæmt heimildum katalónsku fréttasíðunnar RAC 1.

Samningurinn er til þriggja ára og fær Barcelona greiddar 280 milljónir evra samkvæmt RAC 1. Það jafngildir um 40 milljörðum íslenskra króna. Streymisveitan mun styðja bæði við karla- og kvennalið félagsins, að því er kemur fram í grein hjá Marca .

Samningurinn tekur gildi í sumar þegar samningar Barcelona við megin styrktaraðila sína, Rakuten og Beko, renna út. Hvorki Barcelona né Spotify hefur formlega staðfest að samningurinn sé í höfn, en gert er ráð fyrir tilkynningu frá félaginu í vikunni.