Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, stendur fyrir opnunarviðburði á morgun kl. 17 undir heitinu Orkustöð FKA, í tilefni af nýju starfsári. Á dagskránni verður meðal annars upplifunarganga, hönnunarinnsetning og skógarböð.

„Móttaka hefst við Elliðaárstöð með léttum veitingum við komuna í dalinn, opnunarerindi, veitingar, langþráð samvera og einstakt tækifæri til að skoða Rafstöðina, þessa fallegu og merkilegu byggingu á aldarafmæli rafmagnsframleiðslu í Rafstöðinni,“ segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA.

Andrea bendir á að fyrstu orkuskiptin hérlendis hafi hafist við Rafstöðina. „Það var mikil bylting þegar Elliðaárstöð gerði það að verkum að íbúar fengu ljós inn á heimili sín. Nú er Rafstöðin að breyta hlutverki sínu og er afar Covid-vænn staður til að halda góða veislu eða fyrir okkur sem viljum verja tíma saman við að gera alls konar hressandi. Þar er hægt að ganga, sulla og næra sig andlega og líkamlega í Elliðaárdalnum og þarna er margt fyrir augað.“

Andrea segir að félagskonur hafi fundað á netinu „átta daga vikunnar“ á tímum Covid en nú séu þær fullar tilhlökkunar að hittast líka. Á viðburðinum verða léttar veitingar, Lopapeysukeppni, skógarbað og upplifunarganga í Elliðaárhólmanum en þar má finna innsetningar hönnunarteyma þar sem félagskonur koma við sögu.

„Dagskrá lýkur með hamingjustund áður en rafstrætó keyrir FKA konur frá Elliðaárstöð í miðbæ Reykjavíkur. Með raftónlistina í botni að sjálfsögðu. Þannig hefst starfsárið hjá FKA að þessu sinni, með stæl,“ segir Andrea að lokum.

Andrea Róbertsdóttir,  Framkvæmdastjóri FKA
Andrea Róbertsdóttir, Framkvæmdastjóri FKA
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdsastjóri FKA.