Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson mun ásamt liðsfélögum sínum í íslenska handboltalandsliðinu standa í ströngu í janúar á Heimsmeistaramótinu (HM) sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð.

Bjarki segir landsliðshópinn ekki enn hafa sett sér markmið fyrir HM, enda kemur hópurinn ekki saman fyrr en á sjálfan vörutalningardaginn, 2. janúar. Hann kveðst þó persónulega gera sér vonir um að liðið komist í undanúrslit.

„Við höfum ekki enn hist sem hópur fyrir mótið og síðast þegar við hittumst vorum við að undirbúa og spila leiki í undankeppni EM og öll einbeiting var á það verkefni. Mig persónulega langar að ná þeim áfanga að komast í undanúrslit á stórmóti með landsliðinu og mér finnst liðið vera nógu gott til að ná því núna. Í handbolta og íþróttum almennt, þó það sé algjör klisja, þá er það þannig að ef það nást ekki góð úrslit í riðlakeppninni er möguleikinn á sæti í undanúrslitum mjög lítill. Við eigum Portúgal í fyrsta leik sem er mjög verðugur andstæðingur og Ungverja í öðrum leik sem er mjög gott lið.

Svo endum við riðlakeppnina á leik við Suður-Kóreu sem er andstæðingur sem ég þekki minna en Gummi [Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari] veit eflaust allt um þá ef ég þekki hann rétt. Okkur í hópnum dreymir um að komast þetta langt á stórmóti með landsliðinu og spila til verðlauna. Við verðum hins vegar að byrja á að eiga góða riðlakeppni og helst vinna hana til að búa til góðan grunn til að byggja ofan á. Það mikilvægasta núna er að einblína á að vinna fyrsta leikinn og svo færist einbeitingin yfir á þann næsta og svo koll af kolli.“

Viðtalið í heild má lesa í tímariti Áramóta sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið það hér.