Toyota hefur á síðustu misserum komið á markað með Cross útgáfur af grunnmódelum sínum. Á síðasta ári kom Yaris í Cross útgáfu og nú er röðin komin að Corolla. Toyota Corolla hefur notið mikilla vinsælda hér á landi sem annars staðar og örugglega eftirvænting hjá mörgum að sjá nýjan Corolla í Cross útgáfu. Og sem slíkur kemur hann ekki á óvart.

Toyota Corolla Cross Active Plus, sem reynsluekið var, bauð akkúrat upp á það sem ætlað var til hans. Hér er á ferðinni klassískur fimm manna fjölskyldubíll með góða aksturseiginleika, lipur og virkar traustur.

Líkt og um aðra Cross bíla frá Toyota er hann hærri og gerir það aðgengi að honum betra, auk þess sem maður situr hærra sem er kostur. Bíllinn minnir oft meira á Toyota Rav4 en Corolla enda brúar hann bilið á milli hins venjulega Corolla borgarbíls og sportjeppans.

Corolla Cross kemur í grunngerðunum á 17” álfelgum en í dýrari útgáfunum á 18”. Vélin, sem er 2 l Full Hybrid, kom skemmtilega á óvart og var lítið vélarsuð eins og oft hefur heyrst í Hybrid vélum frá Toyota og fleirum. Það kom líka þægilega á óvart að vegahljóðið var lítið sem hefur marga kosti í för með sér.

Toyota Corolla Cross kemur í fjórum grunnútgáfum auk þess sem boðið er upp á ýmsa aukahluti. Grunnverð fyrir Corolla Cross Active er 7.350.000 kr. en dýrasta útgáfan er Corolla Cross Luxury Launch Edition sem kostar 8.390.000 kr, en innifalið í þeim pakka er m.a. panorama glerþak, leðuráklæði, JBL hljóðkerfi og 360° myndavél.

Nánari umfjöllun og myndir af Toyota Corolla Cross má finna í sérblaðinu Bílar sem kom út með Viðskiptablaðinu.