Það var íslenskt verður þegar við lentum á flugvellinum í Salzburg. Rigning, rok og 8 stiga hiti. Við flugbrautina stóð floti af nýjum Porsche Cayenne jeppum. Þarna var mættur annar varabílablaðamaður Viðskiptablaðsins, sá sem helst mátti missa.

Þessi útgáfa af Cayenne er uppfærsla á bílnum sem kom á markað árið 2018. Þetta er hins vegar miklu meiri breyting en örlítil lýtaaðgerð eins og þýskir bílaframleiðendur eru vanir að gera á miðjum líftíma hverrar kynslóðar.

Afturendinn er mun sportlegri, bæði í hefðbundnu útgáfunni og Coupé. Cayenne samsvarar sér sérstaklega vel.

Bíllinn er verulega frábrugðinn eldri útgáfu. Forsvarsmenn Porsche sem við hittum í Kitzbühel tjáðu okkur það að ein ástæða þess væri sú að verið væri að undirbúa Cayenne sem hreinan rafbíl, sem er væntanlegur árið 2025.

„Breytingar eru auðveldar. En betrumbætur eru mun erfiðari,“ sagði Ferdinand Porsche forðum. Það tók ekki langan tíma að átta sig á því að nýr Cayenne er mun betri en eldri bíll.

Þegar ég ræsti bílinn kom vélarhljóð en nokkuð er liðið síðan ég heyrði það síðast. Og tilfinningin var góð. Það verður satt best að segja mikill söknuður eftir þessu hljóði þegar rafbílar verða búnir að taka yfir heiminn.

Þrjár vélar í boði

Cayenne er nú í boði með þremur vélum. Fyrst prófuðum við S bílinn, þann kraftmesta sem er í boði með 8 sílendra vél, í stað 6 sílendra áður, sem skilar 474 hestöflum.

Bíllinn er einnig í boði í tveimur útgáfum sem fyrr, hefðbundinni og í Coupe útfærslu, sem gerir hann enn sportlegri á kostnað plássins í aftursætum.

Í boði er skjár fyrir farþega. Þar getur hann til dæmis horft á kvikmynd.

Stjórnstöðin mikið breytt

Mikil breyting hefur verið gerð á stjórnbúnaði bílsins og innréttingu. Það er mun léttara yfir henni, allur stjórnbúnaður einfaldari og nýr upplýsingaskjár auðveldur í notkun. Stýringin fyrir sjálfskiptinguna er komin í mælaborðið hægra megin við stýrið, sem tók smá stund að venjast.

Ræsihnappurinn er enn á sínum stað vinstra megin við stýrið. Það á rætur sínar að rekja til Le Mans kappakstursins. Ökumenn hófu keppni á hliðarlínunni og þurftu að hlaupa í bíla sína. Verkfræðingar Porsche komust að þeirri niðurstöðu að það sparaði tíma að nota vinstri höndina til ræsa bílinn og þá hægri til að setja í fyrsta gír. Við svona sögur öðlast bílar sál.

„Frábær sinfónía“

Bíllinn var búinn Bose græjum. Ekki ætla ég að þykjast hafa vit á því hvað þarf til að gera gott hljómkerfi gott, en ég lagði fyrir það próf.

Ég setti sjöundu sinfóníu Beethovens á fóninn, Allegretto sem er annar þáttur. Það var viðeigandi því Beethoven, Cayenne og ég eigum það sameiginlegt að koma frá Þýskalandi til Austurríkis, þó dvölin væri mislöng. Ég hafði nú bara verið þar í tvo daga.

Beethoven frumflutti sjöundu sinfóníuna í háskólanum í Vínarborg í desember 1812. Hann var afar ánægður með hana, taldi hana eitt af sínum bestu verkum og komst að orði að þetta væri „frábær sinfónía“. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða mín var sú sama um hljómkerfið.

Porsche Cayenne E-hybrid

  • Orkugjafi: Rafmagn/bensín
  • Hestöfl: 470 (304/176)
  • Drægni: Allt að 90 km
  • Hröðun 0-100: 4,9 sek.
  • Verð: Frá 17.990.00 kr
  • Umboð: Bílabúð Benna

Nánar er fjallað Porsche Cayenne í blaðinu EV - Bílar sem kom út fyrir helgi. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.