Búið er að samþykkja 126 milljón dala tilboð í stórhýsið „The One" sem er staðsett í Bel Air í Los Angeles. Húsið hefur vakið mikla athygli, en myndir og frekari umfjöllun um eignina má sjá í grein Wall Street Journal.

Húsið er tæplega 10 þúsund fermetrar að stærð og inniheldur 20 svefnherbergi, 50 baðherbergi, bílskúr sem rúmar 30 bíla, keiluhöll, fimm sundlaugar, líkamsræktarstöð og snyrtistofu svo fátt eitt sé nefnt.

Eignin var sett á uppboð og bar Richard Saghian, forstjóri smásölurisans Fashion Nova, sigur úr býtum. „Ég er þakklátur að hafa fengið samþykkt tilboð og ég hlakka til að vinna með borgaryfirvöldum í Los Angeles, Bel-Air samtökunum, mínum nýju nágrönnum og hönnunarteyminu mínu, við að fullklára eignina og gera hana eins fullkomna og hægt er," sagði Saghian í yfirlýsingu.

Skiptar skoðanir eru um söluna á meðal kröfuhafa eignarinnar. Einhverjir þeirra telja að kaupverðið sé langt fyrir neðan markaðsvirði eignarinnar. Í grein CNN frá því í byrjun árs var til að mynda sagt frá því að eignin yrði boðin upp á tæplega 300 milljónir dala. Kröfuhafar telja að verð eignarinnar hafi lækkað vegna áhrifa innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu á alþjóðamarkaði.

Húsið var þróað af fasteignamógúlnum Nile Miami, en markmið hans var að byggja „stærsta og flottasta hús í heimi“. Upphaflega átti húsið að skarta spilavíti og fiskabúri með marglyttum. Háleitar hugmyndir hans enduðu ekki betur en svo að húsið var tekið til gjaldþrotaskipta í október í fyrra. Á þeim tíma vonaðist hann eftir því að selja húsið á 325 milljónir dala, en þá námu útistandandi skuldir á eignina 190 milljónum dala.