Þuríður Blær Jóhannsdóttir, ætíð kölluð Blær, er gríðarlega spennt fyrir jólunum, sérstaklega núna þegar hún á nokkurra mánaða gamlan son. „Um leið og hann fæddist, þá kviknaði í mér jólabarnið. Ég get ekki beðið eftir að labba með hann í kerrunni og sýna honum jólaljósin, þótt hann viti enn ekkert hvað jólin eru. Ég er svo spennt að ég byrjaði að syngja jólalög strax í sumar. Það má segja að ég sé að upplifa jólin aftur í gegnum hann. Ég get ekki beðið eftir að hann verði eins árs, tveggja ára og þriggja ára um jólin, hvað það verður ótrúlega gaman."

Kærasti Blævar er Guðmundur Felixson, sonur Felix Bergssonar. Uppeldissystir Guðmundar, dóttir Baldurs, manns Felix, eignaðist barn á svipuðum tíma og Blær, svo það er mikil eftirvænting í fjölskyldunni fyrir þessum jólum með litlu börnin tvö.

Afarnir, Felix og Baldur, búa á Starhaganum en þar eru systir Guðmundar og móðir hennar einnig að byggja hvort sitt húsið, svo þau munu öll búa hlið við hlið. „Nú eru allt í einu komin þrjú hús, hlið við hlið, sem öll tilheyra þessari fjölskyldu og það verður stígur á milli húsanna. Þetta er svona eins og lítill bær."

Blær er uppfull af hugmyndum um framtíðarjólahefðir fjölskyldunnar. „Ég er alveg búin að ákveða aðventuhefðir fjölskyldunnar. Við kannski hittumst öll heima hjá okkur Gumma á fyrsta í aðventu og gerum piparkökur. Á þeirri næstu förum við í húsið til afanna og búum öll til jólatré og svo förum við yfir stíginn og gerum konfekt í næsta húsi. Ég hef endalaust af hugmyndum. Jólin héðan í frá eru að fara að vera svo sturlað skemmtileg og við erum öll að missa okkur í undirbúningnum. Baldur byrjaði að skreyta í ágúst held ég. Hann kallar þetta reyndar vetrarljós svo hann þurfi ekki að segja að þetta séu jólaljós," segir Blær hlæjandi.

Ýmsar hefðir eru í mótun hjá fjölskyldu Blævar en þau hafa ákveðið að þeirra jólahefð verði að vera öll í eins náttfötum á jólunum auk þess að rölta um bæinn á Þorláksmessu, líkt og flestir geri. „Mér finnst mjög kósý að pakka inn síðustu gjöfunum á Þorláksmessu, með rauðvín í glasi og spila jólalög. Mér finnst það eitthvað voða kósý, þótt ég sé á síðustu stundu. Að vera á síðustu stundu er orðið jólahefð fyrir mér!"

Borðaði hangikjöt úr aski

Afi Blævar er þjóðháttafræðingur og minnist hún sérstakrar hefðar úr æsku sinni af heimili hans.

„Heima hjá afa eru alls konar gamaldags munir frá Þjóðminjasafninu. Afi og fósturamma mín halda alltaf jólaboð, yfirleitt á annan í jólum, og einhvern tíma þegar ég var barn vorum við að borða hangikjöt og ég sagðist vilja borða úr aski. Þau áttu auðvitað ask sem ég fékk að borða úr. Ég átti líka tvo frændur á sama aldri og þannig varð sú hefð að við börnin fengum alltaf að borða upp úr aski á annan í jólum. Við klæddum okkur líka í gamaldags föt, sauðskinnsskó auðvitað, og lékum okkur með legg og skel. Þetta var lengi vel hefðin og við hættum þessu ekki fyrr en við vorum orðin svona átján ára," segir Blær hlæjandi. Spurð hvort ný kynslóð taki kannski upp þessa hefð segir hún „já, alveg klárlega. Arnaldur minn, hann mun fá að borða úr aski. Það er mjög gaman og skemmtilegt að ímynda sér að maður sé að halda jólin í einhverjum torfkofa," segir Blær.

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .