Matreiðslumaðurinn Þráinn Freyr Vigfússon, eigandi veitingastaðanna Sumac og Óx og fyrrverandi liðsmaður og þjálfari íslenska kokkalandsliðsins, er höfundur matreiðslubókarinnar Sumac sem kemur út fyrir þessi jól en útgefandi bókarinnar er bókaútgáfan Salka. Hann segir bókina hafa verið í bígerð í um þrjú ár, eða allt frá því að Sumac var opnað í miðbæ Reykjavíkur.

„Sumac er staður sem er undir áhrifum matarmenningar frá Norður-Afríku, þá aðallega Líbanon og Marokkó, en við notum íslenskt hráefni í bland við afrísk krydd. Hugmyndin á bak við Sumac var að koma með eitthvað nýtt inn á íslenska markaðinn og pælingin á bak við bókina er nákvæmlega sú sama. Því tel ég þessa bók passa vel inn á íslensk heimili. Réttirnir í henni eru hollir og eldamennskan öðruvísi en hefðbundin íslensk matreiðsla," segir Þráinn. Því sé bókin skemmtileg nýjung inn í matreiðslubókaflóru landsins. „Í bókinni má finna alla helstu rétti sem hafa verið í boði á Sumac frá opnun, auk nokkurra þekktra rétta frá NorðurAfríku. Líkt og á Sumac er matreiðslan einföld og bókin er sömuleiðis sett upp á einfaldan hátt, þannig að hver sem er getur spreytt sig á að elda réttina sem eru í bókinni," bætir hann við.

Það sem oft stendur í vegi fyrir því að áhugakokkar spreyti sig á hinum ýmsu uppskriftum er það að oft á tíðum innihalda réttirnir hráefni sem nýtast í lítið annað en þessa einu tilteknu uppskrift. Þráinn segir að fyrir utan ákveðnar afrískar kryddblöndur, sem þó sé hægt að nota margsinnis og endist lengi, sé grænmeti og kjöt uppistaðan í réttunum í uppskriftabókinni. Því sé engin hætta á að fólk sitji uppi með fullan ísskáp eða skúffur af hráefnum sem nýtast illa. Hann segir bókina vera tilvalda jólagjöf fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Bókin kemur út í lok nóvember eða byrjun desembermánaðar og verður til sölu í flestum verslunum og bókabúðum. Þá verður einnig hægt að festa kaup á pakka í gegnum vefsíðu Sumac sem inniheldur bókina auk helstu krydda sem þarf í matargerðina.

Laugavegsrölt og hamborgarhryggur

Þráinn kveðst, líkt og flestallir veitingamenn kannast eflaust við, vinna mikið í kringum jólin enda um að ræða einn annasamasta tíma ársins hjá veitingahúsum. Hann segist þó alls ekki geta kvartað yfir því enda sé hasarinn þegar nóg er að gera það sem hann sæki í. Hann segist þó alltaf gefa sér tíma til að halda í þá hefð að taka göngutúr niður Laugaveginn á Þorláksmessu. „Laugavegsröltið með góðum vinum er ómissandi hluti jólanna. Yfirleitt nýtir maður svo tækifærið og kaupir síðustu jólagjafirnar í leiðinni."

Að sögn Þráins hefur einnig skapast hefð fyrir því að hann útbúi smáréttahlaðborð í hádeginu á aðfangadag. „Þá býð ég vinum í heimsókn og nýt þess að spjalla og borða kræsingar með þeim. Þegar líða tekur á daginn færi ég mig svo yfir til foreldra minna og fagna jólunum með þeim."

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .