Frægt málverk eftir götulistamanninn Banksy – sem áður bar heitið „stelpa með blöðru“ en heitir í dag „ástin er í ruslinu“ – seldist á 3,3 milljarða króna á föstudag, 18-falt verðið sem fékkst í fyrsta uppboði verksins fyrir þremur árum síðan.

Ástæðan fyrir nafnabreytingunni, eins og sumir lesendur kannski vita, er sú að um leið og kaupin á verkinu voru slegin af starfsmanni Sotheby‘s uppboðshússins á sínum tíma fór í gang tætari sem listamaðurinn óhefðbundni hafði komið fyrir í myndarammanum. Verkið seldist upphaflega á 1,4 milljónir Bandaríkjadala, sem þá var nýtt met fyrir Banksy.

Listamaðurinn, sem hefur tekist að halda raunverulegu nafni sínu leyndu, hefur verið gagnrýninn á „vöruvæðingu“ listaverka og þeirrar þróunar að list gangi kaupum og sölum á uppboðum sem fjárfestingareign.

Kaldhæðni örlaganna er hinsvegar sú að í stað þess að hafa hrekkt kaupandann frá 2018 með því að tæta í sundur verkið sem hann var að kaupa á hátt í 200 milljónir, bjó hann í reynd til úr því nýtt listaverk sem fangaði athygli og hug heimsins alls.

Haft hefur verið eftir sérfræðingum að verkið sé eitt það merkasta það sem af er öldinni, og orðið hluti af listasögunni, enda það fyrsta í mannkynssögunni sem tætir sig við sölu. Á föstudag kom svo í ljós hversu mikið sú umbreyting hækkaði virði verksins, og hagnað hins undrandi kaupanda, nú seljanda.

Umfjöllun Washington Post.