Þetta er staðurinn fyrir þá sem vilja tengja sig við raunhagkerfið í hádeginu án þess þó að fara í bólakaf með heimsókn á stað á borð við Kænuna í Hafnarfirði. 108 Matur býður á nokkurn fjölda rétta í hádeginu eins og margir aðrir staðir sem eru með hádegishlaðborð. Helstu flaggskip staðarins er snitselið og fiskibollurnar auk þess er yfirleitt boðið upp á kjúkling, pasta og annan fisk. Lambakótilettur í raspi á miðvikudögum og nautasteik með bernais á föstudögum njóta vinsælda.

Maturinn á 108 er góður og allt meðlæti sem og sósur bera þess skýr merki að vera gert frá grunni á staðnum og af töluverðum metnaði. Verðið á matnum er mjög sanngjarnt miðað við gæði og skammta. Hér er ekkert skorið við nögl en diskarnir þó ekki yfirhlaðnir þannig að matargestir úr fágaðri lögum þjóðfélagsins verði vandræðalegir.

Þannig að allir þeir sem vilja slá tvær flugur í einu höggi í hádeginu – það er að borða góðan og staðgóðan mat ásamt því að njóta hinnar tilkomumiklu fegurðar Skeifunnar – verða ekki sviknir af því að heimsækja 108 Mat.