Föt og kjöt? Hverjum hefði dottið það í hug? Augljóslega aðstandendum Nebraska sem er tiltöluleg nýr veitingastaður og fataverslun í miðbæ Reykjavíkur.

Maturinn er klassískur undir Miðjarðarhafsáhrifum en fatnaðurinn höfðar sennilega til þeirra sem yngri eru. Helgi í Góu og Prettyboi choco, barnabarn hans gætu til að mynda slegið tvær flugur í einu höggi með heimsókn á Nebraska en það er önnur saga.

Nebraska er kærkomin viðbót í veitingahúsaflóruna í Reykjavík. Matseðillinn er einfaldur og samanstendur að fáum en vel völdum kjöt-, sjávar- og grænmetisréttum. Flaggskipið á seðlinum er osso bucco með kartöflu-mús og rótargrænmeti. Vafalaust er sá réttur fullþungur í maga í hádegi fyrir kyrrsetufólk en þá er bara að heimsækja staðinn að kvöldi til.

Og þá er hægt að fara í fisk dagsins eða grænmetisrétti á borð við ratatouille. Þá er töluvert úrval af smáréttum sem eru afbragðsgóðir. Þetta eru að stofninum þekktir réttir úr Miðjarðarhafseldhúsinu á borð við brandade, krókettur, auk kavíars og þess háttar.

Það er gaman að boðið er upp á brandade sem er nokkurskonar saltfiskstappa sem er borðuð með brauði og fara kokkar staðarins vel með þann rétt. Það sama við um sardínurnar, arancini – svari Ítala við ostapoppinu frá Iðnmark í Hafnarfirði og þá eru kjötbollurnar í arrabiata-sósunni hreint út sagt framúrskarandi.

Óhætt er því að mæla með Nebraska í hádeginu og við flest önnur tilfelli. Matargerðin er ekki óvænt en hún er metnaðarfull og látlaus í senn.

Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 11. maí 2023.