Messinn hefur veið starfræktur um árabil í Reykjavík. Þetta er sjávarréttastaður sem höfðar til ferðamanna en ekki síður til innfæddra sem sækja í einfalda matargerð sem stendur fyrir sínu í augum þeirra sem vilja fá sér fiskrétt í hádeginu.

Þetta er hvorki staður fyrir þá sem eru áhættusæknir né þá sem lifa fyrir hið óvænta í lífsins ólgusjó. Enda eru starfsmenn fjármálafyrirtækja og fagfjárfestar sjaldséðir gestir á Messanum. Staðurinn er fyrst og fremstur þekktur fyrir fiskipönnurnar sínar en býður þess að auki upp á grænmetisrétt, fiskborgara og sjávarréttarpasta auk forrétta sem er líklegast ætlað fyrst og fremst að höfða til ferðamanna.

Pönnurnar eru flestar með svipuðu meðlæti – kartöflusmælki, tómötum, spínati og fleira í nokkrum útgáfum.

Sá sem þetta skrifar fer yfirleitt í kolann eða bleikjuna og hefur ávallt verið sæmilega sáttur með þá rétti. Reynslan hefur kennt honum að sækja saltfisk og gellur annað en það er önnur saga.

Pannan kostar á bilinu tæpar 3.300 krónur og getur farið upp í 4.000 krónur eftir því hvaða fiskitegund er borinn fram. Í hádeginu er hins vegar hægt að fá pönnuna á tæpar þrjú þúsund krónur. Þetta er auðvitað verðlagning sem aðallega starfsmenn hins opinbera ráða við að jafnaði og kúnnahópurinn sem fyrr segir eftir því.

Andrúmsloftið er ágætt á Messanum og staðurinn er fínn til að mæla sér mót til skrafs og ráðagerðar. Ekki síst þegar fundur er ákveðinn með skömmum fyrirvara.