Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram á morgun, laugardaginn 24. ágúst, í 36. sinn. Á undanförnum árum hafa verið slegin met, bæði í fjölda þátttakenda og eins í áheitasöfnun en sem kunnugt er geta þátttakendur í hlaupinu hlaupið til styrkar góðs málefnis.

Það er nokkuð um að einstaklingar úr atvinnulífinu og stjórnmálum taki þátt í hlaupinu og Viðskiptablaðið rakst á nokkur kunnuleg nöfn þegar farið var yfir síðuna hlaupastyrkur.is, hvar áheitasöfnunin fer fram. Nú þegar um sólarhringur er í hlaupið hafa safnast rúmar 116 milljónir króna til hinna ýmsu málefna.

Andri Þór Guðmundsson , forstjóri Ölgerðarinnar, mun á morgun hlaupa 10 km  fyrir styrktarsjóðinn Traustur vinur. Andri Þór hefur enn sem komið er safnað áheitum fyrir um 275 þúsund krónur en eiginkona hans, Marín Magnúsdóttir , framkvæmdastjóri Practical, mun hlaupa með honum. Tilgangur sjóðsins er að styðja fjárhagslega við bakið á Heimi Jónassyni, fyrrverandi dagskrárstjóri Stöðvar 2, og fjölskyldu hans vegna veikinda hans.

Markaðsmaðurinn og veitingahúsaeigandinn Jón Gunnar Geirdal hleypur 10 km. til styrktar Rjóðrinu, sem er hvíldarheimili fyrir langveik börn.

Ólafur Stephensen , framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, mun hlaupa hálfmaraþon til styrktar Ljósinu, sem er endurhæfingarstöð fyrir krabbameinsgreinda einstaklinga. Ólafur missti systur sína úr krabbameini á síðasta ári.

Þórunn Sveinbjarnardóttir , framkvæmdastjóri BHM og fv. ráðherra, mun hlaupa 10km fyrir Samtök um endómetríósu. Sjálf greindist hún með sjúkdóminn um þrítugt og greinir frá því á síðu sinni að fyrr á þessu ári hafi vinkona henni látist úr honum.

Konráð S. Guðjónsson , hagfræðingur Viðskiptaráðs, mun hlaupa hálfmaraþon til styrktar CLF á Íslandi en markmið félagsins er að styðja við menntun bágstaddra stúlkna í Úganda.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir , eigandi og stofnandi Kara Connect og fv. borgarfulltrúi, mun hlaupa 10km til styrktar Berginu.
Sóley Tómasdóttir , fv. borgarfulltrúi, mun hlaupa 10 km. til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.

Björgvin Ingi Ólafsson , sviðsstjóri Deloitte Consulting, mun hlaupa hálfmaraþon til styrktar Ferðasjóðs Guggu. Sjóðnum er ætlað að styðja Guðrúnu Jónu Jónsdóttur sem er fjölfötluð og bundin við hjólastól eftir líkamsárás árið 1993.

Edda Hermannsdóttir , forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, mun hlaupa 10km fyrir styrktarfélagið LÍF. Tilgangur félagins er að styðja við og styrkja kvennadeild Landspítalans með því að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu og einnig þeirra kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma.

Haukur Bent Sigmarsson , framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi, mun hlaupa 10km til styrktar Krafti, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Guðmundur Kristján Jónsson , framkvæmdastjóri hjá Skipan og fv. aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, mun hlaupa heilt maraþon til styrktar líknarfélaginu Göngum saman, sem  hefur það að markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.

Hjalti Þór Guðmundsson , forstöðumaður hjá Sjóvá, hleypur 10 km fyrir Píeta samtökin, bjóða upp á þjónustu fyrir  fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.