Skólaárið 2022 – 2023 er nú að líða undir lok. Það fylgir gjarnan mikil tilhlökkun meðal grunnskólabarna að vera komin í sumarfrí en fríið er rúmir tveir mánuðir. Einhverjum börnum kann að finnst fríið ekki nógu langt á meðan önnur börn eru farin að telja niður dagana í að skólinn byrji aftur frá byrjun júlímánaðar.

Þrátt fyrir að mörg börn fagni því þegar skólinn byrjar aftur á haustin að nýju þá held ég að það séu foreldrarnir sem fagni því manna hæst. Það má þó ekki gleymast í rútínuleysinu að margar af bestu stundum fjölskyldunnar eiga sér stað á sumrin.

Við ákváðum að taka saman átta hugmyndir fyrir fjölskyldur og/eða vini sem þau geta gert saman í sumar.

  • Senda flöskuskeyti – Góð æfing til að æfa sig að skrifa á meðan skólinn er í fríi eða jafnvel æfa sig að skrifa á öðrum tungumálum en íslensku. Það fylgir því einnig mikill spenningur að kasta flöskunni og eiga möguleika á að fá svar í fjarlægðri framtíð.
  • Kríta, húlla, sippa, snúsnú – Gömlu góðu leikirnir klikka aldrei. Þetta er tilvalið fyrir ykkur foreldrana að sýna hvað í ykkur býr og kenna börnunum.

Í góðu veðri er gaman að leika sér með garðslönguna.
Í góðu veðri er gaman að leika sér með garðslönguna.

  • Leika sér með garðslönguna – Þegar sólin er á lofti og lofthitinn amk. upp í tveggja stafa tölu þá getur verið mjög gaman að draga út garðslönguna og leika sér í vatninu.
  • Fara í nýjar sundlaugar – Þó það sé alltaf skemmtilegt að fara í sund þá getur ný sundlaug gert sundferðina ennþá skemmtilegri.
  • Ratleikur – Búið til ratleik fyrir fjölskylduna eða vinina í hverfinu.
  • Göngutúr á róló – Klæðið ykkur eftir veðri og takið göngutúr saman á skemmtilegan róló.
  • Lautarferð með bók og spil – Takið saman smá nesti, teppi, bók og spil og finnið ykkur góðan grasflöt þar sem þið getið lesið saman, spjallað eða spilað.
  • Hjóla í bakarí – Skellið á ykkur hjálminum og hjólið af stað út í bakarí til að fá ykkur eitthvað gotterí.