Pixel 4a er nýjasti snjallsími tæknirisans Google, og hefur hlotið vægast sagt góðar viðtökur gagnrýnenda. Síminn er sagður hafa upp á allt að bjóða sem meðal notandi gæti þurft, þrátt fyrir afar hófstilltan verðmiða.

Pixel 4a var kynntur fyrir viku síðan og mun kosta 349 Bandaríkjadali, um 60 þúsund íslenskar krónur þegar reiknaður hefur verið virðisaukaskattur ofan á verðið.

Síminn er ekki með það glænýjasta, flottasta og besta, svo því sé haldið til haga. Upplausnin á skjánum er „aðeins“ Full HD (2340x1080), endurnýjunartíðnin er 60hz, skjárinn er 5,81“ að stærð, vinnsluminnið 6GB, innra minnið 128GB, myndavélin 12 megapixlar, og ramminn og bakhliðin úr plasti, svo eitthvað sé nefnt. Örgjörvinn, snapdragon 730G, er úr miðlínu Qualcomm (mid-range).

Ekkert af þessu þætti nóg í dýrustu og flottustu símum dagsins í dag (nema vinnsluminnið í iPhone, en það er önnur saga). En ekkert af þessu er sérstaklega slæmt heldur, og í sannleika sagt er afar ólíklegt að meðalnotandi finni teljandi mun á nokkru af þessu.

Eins og fjallað hefur verið um í þessum miðli hefur hægt nokkuð á þróun snjallsíma síðustu ár. Jafnvel ofangreindar tölur á blaði sem eru örlítið undir því besta í dag, eru líklegar til að verða þokkalegar næstu árin. Helsti ókosturinn í þeim efnum er líklega skorturinn á 5G stuðningi.

Rafhlaðan er að sama skapi í minni kantinum í dag, 3.140 milliamperstundir, en á móti sparar hófsamur vélbúnaðurinn talsvert rafmagn í samanburði við það öflugasta, svo rafhlöðuendingin er nokkuð góð.

En það er fleira sem greinir snjallsíma að en vélbúnaðurinn sem knýr hann áfram. Google hefur loks tekist að skafa vel af umgjörð skjásins (e. bezel), sem hefur verið heldur fyrirferðamikil síðustu ár. Fyrirrennarinn, Pixel 3a, hafði sem dæmi 75% skjáhlutfall (screen-to-body ratio), en 4a hækkar það í 83,3%. Til samanburðar er nýjasti iPhone síminn með 79%.

Loks er það myndavélin. Google reynir ekki að slá um sig með fjölda myndavéla, heldur er bara ein, en mjög góð, myndavél aftan á, og svo önnur framan á auðvitað. Ekki aðeins er myndavélin sjálf mjög góð, heldur er eftirvinnsluhugbúnaður Google talinn sá besti í bransanum.

Niðurstaðan er sími sem flestir ættu að finna lítinn mun á í samanburði við dýrustu símana, þrátt á verði sem er aðeins um helmingur eða jafnvel þriðjungur þess sem punga þarf út fyrir þeim dýrustu.