Sjö tekjuhæstu TikTok stjörnurnar þénuðu 55,5 milljónir Bandaríkjadala árið 2021, sem jafngildir tæpum 7 milljörðum króna. Tekjur stjarnanna tvöfölduðust milli áranna 2020 og 2021, að því er kemur fram í grein Forbes .

Stærstu skemmtikraftarnir á TikTok hafa að undanförnu gert sig gildandi á fleiri vettvöngum en TikTok. Charli D'Amelio er sú tekjuhæsta og áætlar Forbes að árlegar tekjur hennar nemi 17,5 milljónum dala, eða um 2,2 milljörðum króna. Systir hennar, Dixie, er með árlegar tekjur upp á 10 milljónir dala, um 1,25 milljónir króna. Tekjur systranna fjórfölduðust á milli ára.

Tekjustreymi þeirra systra kemur frá margvíslegum áttum. Þær frumsýndu heimildaþáttaröðina The D'Amelia Show á streymisveitunum Hulu og Disney+ síðastliðinn september og er önnur sería í bígerð. Dixie hélt fjölda jólatónleika með Ed Sheeran og Jonas Brothers, meðal annars í Madison Square Garden. Hún gaf út tvö lög á nýliðnu ári og var annað lagið í 25. sæti á Billboard vinsældarlistanum í Bandaríkjunum. Auk þess stofnuðu systurnar fatamerkið Social Tourist í samstarfi við Hollister. Fran Horowitz, forstjóri móðurfélags Hollister, sagði að Social Tourist hefði átt stóran hlut í 10% söluaukningu fatamerkisins í septembermánuði síðastliðnum.

Addison Rae er önnur TikTok stjarna sem sótt hefur tekjur sínar úr margvíslegum áttum. Hún lék hlutverk í kvikmyndinni „He's All That" hjá Netflix og gerði samning við streymisveituna um að leika í fleiri myndum í framtíðinni. Rae er með samning við fatamerkið American Eagle, megin samkeppnisaðila Hollister. Hún er einnig með snyrtivörumerkjalínuna Item, í samstarfi við aðra snyrtivörulínu, Madeby Collective.

TikTok stjörnurnar þéna um 30-50% af tekjum sínum í gegnum kostað efni á TikTok, að því er kemur fram í umfjöllun Forbes. Stórfyrirtæki eins og Amazon, Google, Prada, Louis Vuitton og McDonald's hafa til að mynda borgað fyrir auglýsingu hjá þeim. Samkvæmt Forbes geta fyrirtækin vænst þess að þurfa að greiða allt að hálfa milljón Bandaríkjadala fyrir hvert og eitt kostað efni, eða um 70 milljarðar króna. Þó er algengara að kostað efni sé verðlagt á bilinu 100 til 250 þúsund dali.