Tískuhönnuðurinn Tom Ford hefur fest kaup á stórhýsi á Palm Beach í Flórída fyrir 51 milljón dala, eða sem nemur 7,3 milljörðum króna, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal.

Fasteignakaupin koma skömmu í kjölfar 2,8 milljarða dala sölu á tískumerkinu hans, Tom Ford, til bandaríska snyrtivörurisans Estée Lauder Companies.

Seljandinn var Rob Heyvaert, stofnandi og framkvæmdastjóri framtakssjóðsins Motive Partners. Hann keypti húsið árið 2021 fyrir 35,8 milljónir dala, eða um 5,1 milljarð króna.

Húsið er tæplega 900 fermetrar að stærð. Arkitektinn Daniel Kahan hlaut verðlaun frá samtökunum Preservation Foundation of Palm Beach árið 2019. Á loftmyndum má sjá stóra sundlaug í garðinum.