Grínistinn og þáttastjórnandinn Trevoh Noah hefur sett þakíbúðina sína í Manhattan á sölu á 12,95 milljónir dala, um 1,9 milljarða króna. Íbúðin er staðsett í hinu svokallaða „Hell‘s Kitchen“ hverfi í New York, sem heitir nú Clinton.

Noah hefur gert garðinn frægan í grín- og spjallþættinum „The Daily Show“. Noah tók við þættinum árið 2015, en hann tilkynnti í september síðastliðnum að hann væri hættur að stjórna þættinum.

Um er að ræða þriggja svefnherbergja íbúð í Stella Tower íbúðabyggingunni sem hönnuð var á þriðja áratug síðustu aldar af hönnuðinum Ralph Walker. Noah keypti íbúðina á 10 milljónir dala árið 2017, en hún er einungis í fimm mínútna göngufjarlægð frá upptökuverinu sem The Daily Show er tekinn upp, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Íbúðin er 335 fermetrar að stærð og er á tveimur hæðum. Á efri hæð íbúðarinnar er aðalstofan. Þar má einnig finna verönd þar sem hægt er að spóka sig í sundlaug með innbyggðum hátölurum, hitara og bar. Neðri hæðin inniheldur þrjú svefnherbergi, en eitt þeirra er nú orðið að heimabíói. Á neðri hæðinni má einnig finna lúxusbaðherbergi sem inniheldur meðal annars útsýni yfir borgina og Hudson ánna.