Spænska knattspyrnufélagið FC Barcelona hefur tryggt sér 1,45 milljarða evra lán fyrir enduruppbyggingu á Spotify Camp Nou vellinum, eða sem nemur 217 milljörðum króna. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að eignir þess hafi ekki verið notaðar sem veð í fjármögnuninni.

Að baki fjármögnuninni, sem stendur undir öllum kostnaði við enduruppbygginguna, eru tuttugu fjárfestingafélög. Barcelona byrjar að greiða af láninu eftir að uppbyggingunni lýkur.

Eftir endurbæturnar áætlar félagið að árlegar tekjur af Spotify Camp Nou muni nema 247 milljónum evra. Völlurinn mun taka 106 þúsund manns í sæti árið 2026, en í dag tekur völlurinn 99 þúsund sæti og er stærsti knattspyrnuleikvangur Evrópu.

Liðið mun spila á Ólympíuvellinum í Montjuic tímabilið 2023 til 2024, á meðan stærstu framkvæmdir á Camp Nou eru í gangi. Völlurinn, sem ber heitið Estadi Olímpic Lluís Companys tekur tæplega 56 þúsund manns í sæti og er sjötti stærsti knattspyrnuvöllur Spánar.

Ólympíuvöllurinn í Montjuic tekur um 56 þúsund manns í sæti.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ólympíuvöllurinn tekur þó talsvert færri í sæti samanborið við Camp Nou og má ætla að dýrara verður að sækja heimaleiki Barcelona á næsta ári þar sem færri munu nú komast að.

Hér að neðan má sjá sýnishorn af hinum endurnýjaða Spotify Camp Nou.