Hópur fjárfesta frá Katar undirbýr nú fimm milljarða punda tilboð í enska knattspyrnufélagið Manchester United. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Um er að ræða fjárfestingasjóð í eigu Katar sem kallast Qatar Investment Authority. Fyrrum forsætisráðherra Katar, Hamad bin Jassim bin Jaber Al Thani, leiðir fjárfestahópinn.

Sami hópur fjárfesta hefur einnig verið orðaður við kaup á Liverpool. Núverandi eigendahópur Liverpool, Fenway Sports Group (FSG), setti félagið í formlegt söluferli í nóvember í fyrra, líkt og eigendur Man Utd.

Eigendur Liverpool vilja hins vegar ekki selja meirihlut í félaginu, sem fjárfestahópnum frá Katar hugnast ekki.

Vilja 6-8 milljarða punda

Núverandi meirihlutaeigendur Man Utd, Glazer fjölskyldan, greindu frá því í lok nóvember í fyrra að þeir hygðust selja sig úr félaginu. Þeir hafa sett 6-8 milljarða punda verðmiða á Man Utd, en talið er að kaupverðið verði á endanum í kringum 5 milljarða punda.

Glazer fjölskyldan eignaðist Man Utd árið 2005 fyrir 790 milljónir punda. Árið 2012 seldi fjölskyldan 10% af hlut sínum með skráningu Man Utd á bandaríska hlutabréfamarkaðinn.

Hart barist um stóran bita

Ljóst er að hörð samkeppni verður um kaup á Man Utd sem er eitt verðmætasta og sigursælasta íþróttafélag heims. Breski milljarðamæringurinn og Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe hefur meðal annars staðfest áhuga sinn á því að kaupa félagið.

Ratcliffe virðist vera mikill fótboltaáhugamaður, en hann lagði fram 4,25 milljarða punda kauptilboð í Chelsea í lok apríl á síðasta ári. Ratcliffe var þó heldur seinn í kapphlaupið um Chelsea, og var Todd Boehly staðfestur sem nýr eigandi félagsins nokkrum vikum síðar.

Ratcliffe á nú þegar knattspyrnufélögin Laussanne í Sviss og Nice í Frakklandi, og yrði Man Utd því þriðja félag Íslandsvinsins geðuga.