Íranski-bandaríski auðkýfingurinn Jahm Najafi undirbýr nú 3,75 milljarða dala yfirtökutilboð, eða yfir 500 milljarða króna, í enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times.

Najafi, sem er stjórnarformaður MSP Sports Capital, vinnur nú með hópi fjárfesta að því að setja saman tilboð. Búist er við því að fjárfestahópurinn hefji formlegar viðræður við Joe Lewis, aðaleiganda Tottenham, og Daniel Levy, stjórnarformann knattspyrnufélagsins, á næstu vikum.

Jahm Najafi
Jahm Najafi

Tilboðið metur heildarvirði Tottenham á 3,75 milljarða dala. Þar af er eigið fé Tottenham metið á tæplega 3 milljarða dala, eða um 430 milljarða króna. Kauptilboðið felur í sér að MSP fjárfestahópurinn leggi fram 70% af kaupverðinu en aðrir fjárfestar frá Miðausturlöndum, einkum frá Abú Dabí, reiði fram eftirstandandi 30% kaupverðsins.

Áhugi fjárfestahópsins, sem Jahm Najafi leiðir, er sagður einnig ná til fasteigna og þróunarreita í eigu knattspyrnufélagsins.

Najafi var um tíma minnihlutaeigandi í körfuboltaliðinu Phoenix Suns en NBA-liðið var keypt fyrir 4 milljarða dala í desember síðastliðnum.