Klassíska heimildamyndin „Horfinn heimur“ eftir Ólaf Sveinsson verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Myndin fjallar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar norðaustan Vatnajökuls sem var allt í senn stærsta, umdeildasta og dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar.

Myndin var tekin í fimm daga gönguferð Ferðafélagsins Augnabliks síðsumars 2006, skömmu áður en byrjað var að safna vatni í Hálslón Kárahnjúkavirkjunar. Kárahnjúkavirkjun sjálf er verkfræðilegt afrek, unnið á mjög skömmum tíma við afar erfiðar aðstæður, þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma.

Horfinn heimur er langtíma verkefni þar sem sjá má hvernig áhrifasvæði hálendisins og gróðureyðingin sem tengd er Hálslóni lítur út, allt að 14 árum eftir að virkjunin var tekin í notkun. Orðatiltækið „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ gæti sem best verið einkunnarorð hennar, enda eru engin sambærileg svæði til á hálendi Íslands.

„Það var svo rosaleg froðufelling á sínum tíma í báðar áttir og svo mikil djúpgjá á milli. Menn voru margir hverjir bara hræddir við að tjá sig og fólk í háskólasamfélaginu fékk svo til dæmis ekki stöðuhækkanir og fleira. Þannig það var rosaleg harka í þessu,“ segir Ólafur.

Rætt er meðal annars við vísindamenn sem voru með í för og héldu uppi harðri en málefnalegri gagnrýni á virkjunina og byggingu hennar. Yfirverkfræðingur Kárahnjúkavirkjunar og stjórnmálamaður á Miðausturlandi sem barðist hvað lengst og harðast fyrir byggingu versins kemur einnig fram í myndinni.

Ólafur segir myndina ekki vera áróðursmynd þar sem enginn annar möguleiki var gefin á neina aðra skoðun eða þá að gert sé lítið úr þeim sem koma fram en hafa aðra skoðun.

„Það sem stendur eftir í þessari mynd er að áhorfandi spyr sig „var það þess virði?“. Meirihlutinn á Miðausturlandi er á því að þetta hafi bjargað samfélaginu en staðreyndin er sú að það kemur sáralítill peningur inn í íslenska efnahagskerfið með þessu blessaða álveri.“