Vestfirðir eru efstir á lista yfir svæði til að heimsækja árið 2022 í árlegu vali ferðabókaútgefandans Lonely Planet yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja árið 2022, eða svokallaða Best in Travel viðurkenningu, sem birt var í gærkvöldi. Val Lonely Planet mun beina kastljósi heimsbyggðarinnar að Vestfjörðum sem mun reynast mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og á Íslandi almennt, að því er segir í tilkynningu Vestfjarðarstofu.

Á hverju ári tilnefna ferðarithöfundar, bloggarar og starfsfólk Lonely Planet staði fyrir Best in Travel listann, sá listi fer síðan fyrir dómnefnd sem fær það hlutverk að velja tíu staði sem skara frammúr. Hver staður sem er valinn er einstakur, býr yfir ákveðnum „Vá faktor“ og hefur lagt sitt af mörkum til framþróunar sjálfbærrar ferðaþjónustu.

„Fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum fæst ekki jafn glæsileg viðurkenning og Best in Travel hjá Lonely Planet er. Ég hef oft sagt að Vestfirðir eigi mikið inni þegar að kemur að ferðaþjónustu og þarna sjáum við það alveg svart á hvítu að þetta einstaka svæði sker sig úr í samkeppni við alla rómuðustu áfangastaði heimsins.“ segir Díana Jóhannsdóttir hjá Áfangastaðastofu Vestfjarða.

Ferðaþjónusta hefur átt undir högg að sækja vegna COVID-19 síðastliðin tvö ár, en sjá mátti viðsnúning í sumar þegar erlendir ferðamenn ferðuðust í auknu mæli aftur til Íslands og til Vestfjarða þegar létti á ferðatakmörkunum. Vestfirðingar eru vongóðir um að áhuginn á svæðinu verði enn meiri þegar ferðavilji tekur að glæðast á ný.

„Eftir áföll síðustu ára vegna heimsfaraldurs er svona viðurkenning mikið tækifæri fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum og liður í því að greinin taki næsta stóra skref framávið. Ferðaþjónustan á Vestfjörðum er að koma sterk til baka eftir heimsfaraldurinn og stefnir hratt uppávið. Saman með uppbyggingu ferðaþjónustusegla eins og á Bolafjalli mun þessi viðurkenning skipta sköpun fyrir vöxt og viðgang ferðaþjónustu á Vestfjörðum“ segir Jón Páll Hreinsson , bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar.

Í öðru sæti á listanum er Vestur-Virginía í Bandaríkjunum og Xishuangbanna í Kína er í því þriðja. Í efstu tíu sætin kemst einnig Búrgúndí hérað í Frakkalandi og Vancouver-eyja í Kanada.

Topp tíu svæðin til að heimsækja árið 2022 að mati Lonely Planet:

  1. Vestfirðir, Ísland
  2. Vestur-Virginía, Bandaríkin
  3. Xishuangbanna, Kína
  4. Heritage Coast í Kent héraði, England
  5. Púertó Ríkó
  6. Shikoku eyja, Japan
  7. Atacama eyðimörkin, Chile
  8. Scenic Rim, Ástralía
  9. Vancouver-eyjan, Kanada
  10. Búrgúndí, Frakkland