Leikkonan góðkunna Edda Björgvins er ekki bara menntaður leikari með mastersgráðu í menningarstjórnun heldur er hún einnig með diplomagráðu á mastersstigi í jákvæðri sálfræði. Edda hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um húmor í stjórnun og húmor og hamingju á vinnustöðum, hjá ótal fyrirtækjum hér á landi og erlendis, um hversu grafalvarleg gleðin er í lífinu.

Ein leiðin til að auka hamingjuna er að læra að þekkja styrkleika sína  „Við sem þjóð erum með ótrúlega marga styrkleika til að bæta líf okkar en þurfum oft að láta benda okkur á þá“  segir Edda.

Edda hefur ásamt öðru hugsjónafólki látið gera íslenska útgáfu af styrkleikakortum, sem munu örugglega gagnast einstaklingum og hópum vel í framtíðinni.

Kortin eða spilin hafa lengi verið notuð jafnt af fagfólki sem leikmönnum, t.d. meðferðaraðilum, stjórnendum, kennurum, prestum og allskonar hópum og einstaklingum út um allan heim. Styrkleikakortin eru sérlega áhrifaríkt tæki til að vinna í hópefli á vinnustöðum. Nú eru kortin hennar Eddu komin í forsölu á Karolinafund.com eða https://www.karolinafund.com/project/view/1757

Mikilvægi þess að kalla fram styrkleika hjá öðrum

Greining og umræða um styrkleika getur framkallað jákvæðar breytingar í lífi og starfi fólks um allan heim. Rannsóknir sýna til dæmis að þeir sem fá tækifæri á að nýta styrkleika sína í vinnu á hverjum degi tengjast vinnunni sinni betur, eru ánægðari og ná meiri árangri, auk þess að upplifa mun betri lífsgæði almennt. Þegar þú færð tækifæri til að nýta þína náttúrulegu styrkleika dag eftir dag upplifir þú jákvæðar tilfinningar og aukið sjálfstraust. Þú eflir þrautsegju og bjartsýni og sjálfkrafa myndast vörn gegn andlegri vanlíðan þar sem athyglin færist yfir á það sem þú getur og ert góður í.

Á þeim vinnustöðum þar sem styrkleikakort hafa verið notuð til uppbyggingar og mannræktar hafa samskipti gjörbreyst og andrúmsloft batnað verulega og einelti víða verið útrýmt.