Vala Kristín Eiríksdóttir segir leikhúsið hafa verið sína uppeldisstöð í leiklistinni en hún hóf störf í Borgarleikhúsinu í beinu framhaldi af útskrift úr leiklistarskólanum.

„Ég hef verið starfsmaður þar í 6 ár og verið heppin að fá að leika í allskonar mismunandi sýningum og gera ólíka hluti. Ég hef fengið að vinna mikið sem er besta reynslan. Samhliða náminu og leikhúsinu hef ég verið að dunda mér við skrif og framleiðslu á sjónvarpsþáttum. Við Júlíana hófum okkar samstarf með þáttunum Þær tvær. Ég hef því alltaf verið með annan fótinn í mínum eigin verkefnum en líka að leika í auglýsingum og bíómyndum."

Vala Kristín segir það að leika á sviði og í sjónvarpi í grunninn vera það sama - markmiðið sé að hafa samkennd og samsömun með hlutverkinu. Það kom henni samt á óvart hversu ólíkt þetta er tæknilega.

„Þegar þú ferð inn í leikrit þá fer leikritið bara af stað og það stoppar ekki fyrr en það er búið. Um leið og þú ert búin að segja eina setningu þá er hún farin og þú getur ekkert fengið að gera hana aftur. En í tökum þá er þetta meiri bútasaumur. Þú þarft að gera sama hlutinn aftur og aftur til að ná honum frá mismunandi sjónarhornum".

Hún segir það einnig reyna á að þurfa kannski að taka upp fyrstu og síðustu senuna í heilli seríu með klukkutímamillibili en fá ekki að leika allt ferðalagið þar á milli.

"Munurinn er því aðallega tæknilegs eðlis. Það er samt eitthvað við það að leika fyrir framan fólk í rauntíma, það myndast einhver töfrastund, þar sem allir deila sama augnablikinu. Þú heyrir fólk hlæja og taka andköf en svo heyrir þú líka þögnina ef enginn bregst við."

Gríninu til varnar

Hún tekur fram að henni finnist yfirleitt leikarar sem séu góðir í gríni líka vera góðir í drama því það felist svo mikil þjálfun í því að leika kómedíu.

„Mér finnst ofboðslega gaman að gera grín og leika í kómedíu en það er líka mjög tæknilega krefjandi. Það getur bara munað sekúndubroti hvort brandari virkar eða ekki. Ég hef samt fengið að reyna mig á dramatískari rullum upp á síðkastið og mér finnst það ekkert síður eiga við mig. Ég held ég sé bara jafnvíg," segir hún.  Henni þykir ekkert skrýtið að fólk tengi hana við grín enda gefi hún sig út fyrir að vera gamanleikkona.

Viðtalið við Völu Kristínu má finna í heild sinni í Jólagjafahandbók, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .