Velska knattspyrnufélagið Wrexham tryggði sér í gær sigur í National League, fimmtu efstu deild Englands, með 3-1 sigri á Boreham Wood. Liðið tryggði sér þar með sæti í deildarkeppni Englands en það hafði leikið í utandeildum undanfarin 15 ár.

Liðið er í eigu Hollywood-leikaranna Ryan Reynolds og Rob McElhenney sem keyptu félagið á 2 milljónir punda fyrir um þremur árum síðan. Á síðasta ári komu út þættirnir Welcome to Wrexham þar sem áhorfendur fengu að skyggnast á bakvið tjöldin hjá klúbbnum og nýjum eigendum þess.

Auk þess að setja 2 milljónir punda inn í félagið við kaupin er talið að þeir félagar hafi sett aðrar 1,2 milljónir punda inn í félagið á tíma sínum sem eigendur. Varla þarf að taka fram að Wrexham er langríkasta félagið sem spilar í utandeildum Englands. Sjálfur er Reynolds metinn á um 350 milljónir Bandaríkjadala, en auk þess að vera heimsfrægur leikari hefur hann gert sig gildandi sem fjárfestir. Hann átti til að mynda fjórðungshlut í fjarskiptafélaginu Mint Mobile sem nýlega var selt til T-Mobile á 1,35 milljarða dala.

Mikið húllumhæ var í kringum leik Wrexham við Boreham Wood í gær. Eigendurnir voru að sjálfsögðu mættir á leikinn en með þeim í för var enn annar Hollywood-leikari, Paul Rudd. Að leik loknum fögnuðu leikararnir sigrinum vel ásamt stuðningsmönnum Wrexham.