Jógamiðstöðin Yoga Shala Reykjavík í Skeifunni hefur boðað á facebook síðu sinni að jógatímar í miðstöðinni verði fluttir á netið í kjölfar þess að hertar reglur tóku gildi í morgun um samkomubann vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19.

Fyrst þegar bannið tók gildi var sett hámark um 100 manns samankomna og 2 metrar á milli, en í morgun voru reglurnar hertar, hámarkið sett í 20 auk þess sem ýmis konar þjónusta sem þarfnast mikillar nálægðar eins og hárgreiðslur, líkamrækt og annað var stöðvuð.

Þannig loka til dæmis allar sundlaugar borgarinnar frá og með morgundeginum, sem og fjölskyldu og húsdýragarðurinn, ylströndin, Skautahöllin, sem og öll skíðasvæði á höfuðborgarsvæðinu. Í tilviki Yoga Shala er meðlimum jógamiðstöðvarinnar boðið að nota sérstakt app stöðvarinnar og með skráningu í tíma komi slóð í netpósti þar sem hægt sé að opna jógatímann.