Reynir Grétarsson, stofnandi CreditInfo, lýsir því í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark að japanska listakonan Yoko Ono, ekkja John Lennon, hafi svikið stefnumót við sig um árið. „Hún bauð mér á stefnumót en hún mætti ekki. Ég mætti.“

Aðdragandi þess var að þau voru stödd í sama heitapotti í heilsulindinni á Hilton Reykjavík Nordica.

„Hún var orðin svolítið hrum þannig að þegar hún ætlaði upp úr pottinum þá þurfti ég að styðja hana. Ég studdi hana upp úr pottinum og niður á gólf. Þá vildi hún fara í gufuna. Hún var svolítið pirruð, var búin að hrekja burt aðstoðarfólkið sitt og svona,“ lýsir Reynir.

Þá hafi Yoko Ono spurt hann um ráð um hvorn gufuklefann hún ætti að fara í en hún hafði val um tvo klefa.

„Ég spurði hvort hún væri frá Finnlandi? Hún horfði á mig með fyrirlitningarsvip og beið. Ég sagði „af því að ef þú ert frá Finnlandi þá ferðu í þennan, ef þú ert ekki frá Finnlandi þá ferðu í [hinn sem er kaldari].“

Þá brosti hún og sagði „You're coming with me“. Svo fórum við í gufu. Vorum þar og spjölluðum saman heillengi. Svo þegar hún fór þá spurði hún „sama tíma á morgun?“. Ég sagði já en svo kom hún ekki.“