*

Heilsa 3. desember 2013

10 hlutir sem valda streitu og allir ættu að taka út

Allt of margir sætta sig við streituástand og vanlíðan. En hvernig væri að taka út þá meginþætti sem valda streitu?

Í grein í Wall Street Journal kemur fram að streita er meginorsök þess að fólki líður illa í vinnunni og hamlar því í daglegum störfum og afköstum.

Í greininni kemur einnig fram að það er ekki samræmi á milli hugmynda stjórnenda og starfsfólks um hvað veldur streitunni. Meðalstarfsmaðurinn finnur streitu í fjórum meginflokkum: Vinnuálagi, samskiptum, atvinnuöryggi og að halda jafnvægi á milli vinnunnar og einkalífsins. 

Til að geta betur tekist á við þessa streituþætti er fólki ráðlagt að skoða tíu atriði sem allt of margir taka bara sem sjálfsögðum hlut og eðlilegum þáttum í lífinu. En þeir eru það svo sannarlega ekki og fólk ætti að reyna eins og það getur að stroka eftirfarandi atriði út úr lífi sínu: 

1. Að vera brunninn út. Þetta ástand þýðir í rauninni það að einstaklingurinn er orkulaus, áhugalaus og með lítið sjálfstraust. Ef fólk horfist ekki í augu við að vera brunnið út í starfi og gerir ekkert í því getur það orsakað andlegan- og/ eða líkamlegan heilsubrest. 

2. Sinnuleysi. Sumir verða hálf óvirkir vegna ótta, sektarkenndar eða vegna þess að þeir vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Hér er lykilatriði að taka smærri skref í átt að markmiðunum.

3. Neikvæðni. Neikvæðni er alls staðar og sérstaklega á atvinnumarkaðinum. Húmor vinnur vel á neikvæðni. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að húmor styrkir ónæmiskerfið og minnkar stress. Einnig hafa þær sýnt fram á að húmor eykur vellíðan og hefur letjandi áhrif á tilfinningar á borð við reiði, þunglyndi og kvíða. 

4. Skipulagsleysi. Þeir sem eru með allt í rugli segjast oft ekki hafa tíma til að koma reglu á hlutina. Þetta er afsökun. Skipulag lætur fólki líða betur og þá afkastar það meira. 

5. Krónískt stress. Þegar fólk er alltaf undir álagi líður því illa. Nýjustu rannsóknir sýna að auki að stress getur í alvörunni látið fólk eldast hraðar vegna þess að stressástand hægir á endurnýjun heilafruma. 

6. Samanburður. Það er í eðli mannsins að bera sig saman við næsta mann. En þegar fólk heldur að hamingjan sé fólgin í því að eiga jafn flottan bíl og nágranninn þá er það komið á villigötur. 

7. Að halda að eitthvað fullkomið sé til. Að halda að fólk muni ekki kunna að meta þig nema þú sért fullkomin(n) eða leysir verkefnin fullkomlega af hendi er þung byrði að bera og drepur alla sköpunargáfu. 

8. Álit annarra. Það er allt of algengt að fólk hafi áhyggjur af því hvað öðrum fannst um eitthvað sem það sagði eða gerði. Þegar fólk hættir að hafa áhyggjur af áliti annarra, utan nokkurra sem það treystir vel, fær fólk betri stjórn á lífi sínu. 

9. Að hata vinnuna sína. Samkvæmt nýrri Gallup könnun segjast 50% vera frekar óvirkir í vinnunni og 20% mjög óvirkir. Það þýðir að 70% fólks er á hálfgerðri sjálfstýringu í vinnunni. Fólk þarf að endurskoða stöðu sína í vinnunni og ef það er óánægt eða ófullnægt þarf að bregðast við því. 

10. Fjárhagslegt ólæsi. Það getur verið gott að skilja í hvað peningarnir fara og hvernig má haga sér skynsamlega í fjármálum. 

Sjá nánar á Forbes.com.

Stikkorð: Streita  • Vanlíðan