*

Bílar 11. október 2019

10 milljón Land Cruiser jeppar selst

Toyota heldur sögusýningu um Land Cruiser á morgun en fyrsti slíki bíllin kom á markað í ágúst 1951.

Róbert Róbertsson

Um þessar mundir fagnar Toyota þeim áfanga að 10 milljón Land Cruiser jeppar hafa selst og af því tilefni verður Land Cruiser sögusýning haldin hjá öllum viðurkenndum söluaðilum Toyota á morgun laugardag.

Þann 31. ágúst rann Land Cruiser númer 10 milljón af færibandinu en fyrsti bíllinn í Land Cruiser fjölskyldunni leit dagsins ljós 1. ágúst 1951 og hét Jeep BJ. Sá bíll var framleiddur fyrir Japansmarkað en útflutningur hófst með tilkomu Land Cruiser 20 fjórum árum seinna. Í fyrstu voru innan við 100 bílar fluttir út á ári en 1965 var útflutningurinn kominn í 100.000 bíla árlega.

Nú er Land Cruiser seldur í 170 löndum og árssalan er 400.000 bílar. Land Cruiser jeppinn er í stöðugri þróun og reglulega koma nýjar og endurbættar útgáfur til að sinna ólíkum þörfum viðskiptavina út um allan heim.

Land Cruiser hefur um árabil verið einn vinsælasti bíllinn á Íslandi enda fellur hann vel að smekk Íslendinga sem kjósa bíl sem er bæði ljúfur borgarbíll og hörkutól við krefjandi aðstæður á fjöllum. Sagt hefur verið að ef gerð yrði könnun meðal Íslendinga um það hvaða kostum bíllinn þeirra ætti að vera búinn og þarfir allra sameinaðar í einum bíl yrði útkoman Land Cruiser enda er hann oft nefndur Íslandsjeppinn.

12.779 Land Cruiser hafa verið skráðir á Íslandi frá því fyrstu bílarnir komu til landsins. Athygli vekur að 10.719 Land Cruiserar eru nú í umferð og er því 84% allra Land Cruisera sem skráðir hafa verið hér á landi enn í umferð.

Toyota á Íslandi fagnar 10 milljón Land Cruiserum með sögusýningu hjá söluaðilum í Kauptúni Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi á morgun laugardag kl. 12–16. Þar má sjá nýja og notaða Land Cruisera, breytta Cruisera, uppgerða gullmola og vinnuþjarka sem þjónað hafa eigendum sínum lengi.

Stikkorð: Toyota  • Land Cruiser  • sögusýning