*

Ferðalög 22. apríl 2013

10 ódýrustu borgir í Evrópu

Þær eru sumar hverjar úr alfaraleið og gleymdar, borgirnar sem komast á lista yfir ódýrustu borgir í Evrópu.

Price of Travel hefur tekið saman lista yfir tíu ódýrustu borgir í Evrópu. Tekið var tillit til verðlags á gistingu á hosteli, tveimur farmiðum í almenningssamgöngur, miða á listasafn, þremur máltíðum á ódýrum veitingastöðum og þremur bjórtegundum.

Það sem kemur á óvart er að þrátt fyrir kreppuástand í Evrópu þá er ódýrara að ferðast um álfuna í dag en fyrir tveimur árum. Sjá nánar á BBC.

Búkarest, Rúmenía.

Búkarest eða Litla París er höfuðborg Rúmeníu. Helstu perlur borgarinnar eru ekki endilega mjög aðgengilegar fyrir ferðamenn svo að þeir þurfa að hafa fyrir því að skoða sig um. En byggingar í borginni, eins og þinghúsið og tónleikahöllin þykja óviðjafnanlega fallegar.

Sofía, Búlgaría.

Gamli hluti Sofíu er einstaklega fallegur en borgin var byggð fyrst af keltneskum ættbálki á fimmtu öld fyrir Krist og er hún því ein af elstu borgum í Evrópu. Það er því nóg að sjá fyrir ferðamenn, bæði fornar rústir og fallegt útsýni.

Kraká, Pólland.

Eins og með Prag og Búdapest þá er búist við því að verðlag muni hækka í borginni þegar hún verður vinsælli. Wawel kastalinn og markaðurinn í miðborginni eru vinsælir hjá ferðamönnum.

Sarajevó, Bosnía og Hersegóvína.

Vegna umsátursins um Sarajevó í Júgóslavíustríðinu hefur borgin átt erfitt uppdráttar í ferðamannaiðnaðinum. En fólk sem gerir sér ferð til borgarinnar verður fyrir óvæntri ánægju. Umhverfis borgina er fallegur fjallgarður, miðborgin er nútímaleg og skemmtilegt er að heimsækja hverfi múslima. Í Sarajevó hafa múslimar, gyðingar og kristnir búið öldum saman og hefur borgin því fengið viðurnefnið Jerúsalem Evrópu.

Kíev, Úkraína

Vegna þess að borgin er úr alfaraleið er verðlagið lágt. En þeir sem nenna að leggja ferðalagið á sig eru heppnir. Borgin er yfirfull af söfnum, leikhúsum, rústum og sagan drýpur af hverri steinhellu.

Ríga, Lettland.

 Miðborg Ríga er pökkuð börum og veitingastöðum. Auðvelt er að komast um miðbæinn fótgangandi eða með strætisvögnum. Óperuhúsið og Art Nouveau safnið eru vinsælir áfangastaðir hjá ferðamönnum.

Belgrad, Serbía.

Eins og með Sarajevó þá hefur Belgrad gengið erfiðlega að laða til sín ferðamenn á síðari árum. Það sem borgin er hvað þekktust fyrir er öflugt næturlíf og síðan auðvitað gott verðlag. Byggingarstíllinn í borginni þykir einnig magnaður en þar má finna ólíka stíla, allt frá bísönskum stíl, ottómana stíl og art nouveau.

Búdapest, Ungverjaland.

Búdapest er gríðarlega vinsæl meðal ferðamanna. Í miðborginni eru kastalar, kirkjur, alls kyns baðhús og 16. aldar tyrknesknar heilsulindir.  

Varsjá, Pólland.

Varsjá hefur oft fallið í skuggann af Kraká. Borgin þykir merkilegur vitnisburður um lífið eftir fall Sovétríkjanna.

Zagreb, Króatía.

Þeir sem ferðast til Króatíu fara oft frekar í strandbæina og sleppa höfuðborginni Zagreb. Borgin þykir góð blanda af Austur- og Vestur-Evrópu. Hún hefur sjarmann úr austri og er nútímaleg eins og borgirnar í vestri. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Evrópa  • Ódýrt